Erlent

Skipaði ráðherrum að sniðganga vinsælan spjallþátt

Samúel Karl Ólason skrifar
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu.
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu. Vísir/EPA
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, hefur bannað ráðherrum sínum að fara í hinn vinsæla spjallþátt Q&A á ABC í Ástralíu. Það gerði ráðherrann eftir að maður sem hafði hótað að myrða embættismenn var þar í beinni útsendingu.

Australian Broadcasting Corp eða ABC, hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni á síðustu tveimur vikum, eftir að Zaky Mallah var settur í beina útsendingu. Mallah var dæmdur árið 2005 fyrir að hóta að myrða embættismenn í Ástralíu, en hann var ákærður fyrir að skipuleggja hryðjuverk.

Hann spurði embættismenn í þættinum, og þá sérstaklega Steven Ciobo, hvort að ríkisstjórn Ástralíu ætlaði sér að svipta fólk sem styddi hryðjuverk áströlsku ríkisfangi.

Ánægður með að vísa honum úr landi

Ciobo sagðist þá minnast þess að Mallah hefði verið sýknaður af hryðjuverkatengdu ákærunni vegna tæknilegs atriðis og að hann hefði játað að hafa hótað að myrða embættismenn. Ciobo sagði að hann yrði ánægður með að vera aðili að ríkisstjórn sem hefði vísað Mallah úr landi.

Mallah svaraði á þann veg að ríkisstjórn Ástralíu og ráðherrar eins og hann hefðu réttlætt það fyrir áströlskum múslimum að ferðast til Sýrlands og ganga til liðs við Íslamska ríkið.

Barnaby Joyce, landbúnaðarráðherra Ástralíu, ætlaði að vera í þættinum í kvöld, en hætti við í dag. Í tilkynningu frá honum segir hann að Abbott hafi bannað ráðherrum sínum að taka þátt í umræðunni í Q&A.

ABC hefur gefið út að það hafi verið röng ákvörðun að bjóða Zaky Mallah í þáttinn og hafa þeir sett af stað innri rannsókn á því hvernig sú ákvörðun var tekin. Ráðherrar munu ekki fara í þáttinn fyrr en þeirri rannsókn er lokið.

Umrædda umræðu má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×