Innlent

Skilur að fólk sé undrandi á því að fá bréf um að það sé með tvo heimilislækna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Verkefnastjóri hjá Sjúkratryggingum segir það þó af og frá að verið sé að ýta fólki yfir í einkarekstur; fólk fái val um hjá hvorum lækninum það vilji vera.
Verkefnastjóri hjá Sjúkratryggingum segir það þó af og frá að verið sé að ýta fólki yfir í einkarekstur; fólk fái val um hjá hvorum lækninum það vilji vera. vísir/stefán
Fjöldi fólks fær nú bréf frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem því er tjáð að það sé skráð með tvo heimilislækna, annars vegar hjá heilsugæslunni og svo hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni sem er með samning hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Margir kannast hins vegar ekki við að vera skráðir hjá tveimur heimilislæknum, til að mynda Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún sagði frá því á Facebook-síðu sinni í vikunni að hún fékk slíkt bréf en annan lækninn, þann sem er sjálfstætt starfandi, kannaðist hún ekkert við. Katrín þurfti engu að síður að láta vita hjá hvorum hún ætlaði að vera, annars yrðu hún og börnin hennar færð yfir til læknisins sem hún hafði aldrei heyrt um.

Skrá yfir sjúklinga orðin mjög gömul

Katrín Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands, segir að skráin yfir sjúklinga sem séu með heimilislækni hjá Sjúkratryggingum sé orðin mjög gömul og því sé verið að leiðrétta hana núna þannig að fólk sé ekki skráð með tvo heimilislækna.

„Fólk fer kannski inn á skrá upphaflega sem börn eða unglingar og man kannski ekkert eftir því að það hafi verið skráð hjá viðkomandi lækni. Síðan getur það gerst að læknirinn hættir vegna aldurs og nýr læknir tekur við og þá verður svona samfella til þess að sjúklingarnir missi ekki heimilislækni. Þá fara þeir yfir á þann lækni sem tekur við sjúklingahópnum.“

Katrín segir að fólk færist aldrei frá heilsugæslunni yfir til Sjúkratrygginga þegar læknir hættir vegna aldurs heldur sé bara um að ræða sjúklinga sem hafa verið skráðir hjá Sjúkratryggingum. Hins vegar sé algengt að fólk leiti frekar til heilsugæslunnar og skrái sig hjá lækni þar og leiti þá ekki til læknisins hjá Sjúkratryggingum. Hún kannast ekki við að um mistök sé að ræða í skráningum.

Skrá aldrei fólk án þess að fyrir liggi undirritaður pappír

„Við skráum fólk aldrei hjá okkur nema að við fáum undirritaðan pappír frá viðkomandi. Eins ef að fólk vill hætta þá fáum við það líka undirritað frá lækninum. Það er alltaf þannig. Þó er það auðvitað svo að ef að fólk var upphaflega skráð hjá einhverjum lækni sem er löngu hættur og viðkomandi færist þá yfir til læknisins sem tekur við, skráir sig kannski í millitíðinni sjálft hjá heilsugæslunni og hefur aldrei haft samband við lækninn hér, ég skil það þá alveg að fólk getur verið undrandi á þessu. Þannig getur það þó verið og er reyndar bara mjög líklegt,“ segir Katrín.

Hún segist ekki þora að fara með hvers vegna fólk sem er skráð hjá tveimur heimilislæknum haldi skráningunni hjá sjálfstætt starfandi lækninum en ekki þeim sem er innan heilsugæslunnar. Katrín segir það þó af og frá að verið sé að ýta fólki frekar yfir í einkarekstur í heilbrigðisgeiranum; fólk fái val um hjá hvorum lækninum það vilji vera.


Tengdar fréttir

Kannast ekki við heimilislækninn

Fjöldi fólks fær nú bréf frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem því er tjáð að það sé skráð með tvo heimilislækna, annars vegar hjá heilsugæslunni og svo hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×