Innlent

Skilorðsbundinn fangelsisdómur fyrir heimilisofbeldi á Suðurnesjum

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Héraðsdómi Reykjaness.
Frá Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Hari
Karlmaður hlaut í dag eins mánaðar skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að ráðast á þáverandi kærustu sína á Suðurnesjum í febrúar árið 2013. Jafnframt er honum gert að greiða allan sakarkostnað. Er honum gert að sök að hafa slegið konuna í andlitið, brotið glerborð á heimili hennar og hent farsíma hennar í jörðina með þeim afleiðingum að hann eyðilagðist.

Lögregla á Suðurnesjum var kölluð að heimili parsins seint um nótt árið 2013 vegna tilkynningar um heimilisofbeldi. Konan var þá komin í aðra íbúð með yngri son sinn og sagði lögreglu að kærasti hennar hefði lamið sig.

Í greinargerð lögreglu segir að maðurinn hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis þegar hann var tekinn tali, en þó viðræðuhæfur. Hann sagði þau tvö hafa farið að rífast, hann hafi sparkað í borðið og brotið það óvart en kærasta hans hafi við það slegið hann nokkrum sinnum. Hann hafi þá orðið mjög reiður og slegið hana á móti tvisvar til þrisvar sinnum. Hann var í framhaldi handtekinn og færður á lögreglustöð.

Fram kemur í dómsorðum að konan hlaut meðal annars mar á eyra og á hnakka og bólgu yfir gagnauga eftir árásina. Maðurinn var sömuleiðis með blæðandi áverka á höfði eftir kvöldið sem hann sagði vera eftir konuna. Hún sagðist fyrir dómi örugglega hafa reynt að verja sig en að það væri ósatt að hún hefði slegið til hans að fyrra bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×