Innlent

Skilar minnisblaði í vikunni

ingvar haraldsson skrifar
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnti þingnefnd niðurstöðu sína á föstudag.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnti þingnefnd niðurstöðu sína á föstudag. fréttablaðið/gva
Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, hyggst senda Ólöfu Nordal innanríkisráðherra minnisblað fyrir vikulokin. Ólöf fól Hafsteini á föstudaginn að fara yfir með hvaða hætti innanríkisráðuneytið gæti brugðist við þeim ábendingum sem sneru að ráðuneytinu og komu fram í áliti umboðsmanns Alþingis vegna samskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Hafsteinn vill ekki tjá sig efnislega um álit umboðsmanns fyrr en hann skilar Ólöfu minnisblaðinu.

Meðal þess sem fram kemur í álitinu er að Hanna Birna hafi ekki getað sýnt fram á að hún hafi fylgt 20. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að leita sér ráðgjafar. Umboðsmaður beinir því þeim tilmælum til innanríkisráðherra að gæta þess að þessu atriði verði fylgt.

Þá bendir umboðsmaður á að Hanna Birna hafi ekki veitt sér réttar upplýsingar varðandi málsatvik. Hann biðlar því til Ólafar Nordal, núverandi innanríkisráðherra, að þess verði framvegis gætt að umboðsmaður fái réttar upplýsingar um þau mál sem hann hefur til athugunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×