Innlent

Skilaboð til ráðamanna: „Það skiptir máli hvað öllum finnst, ekki bara fullorðnum“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
500 börn komu saman í Flataskóla í dag á alþjóðlegum degi barna og afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar tóku fulltrúar í réttindaráðum Flataskóla og Laugarnesskóla og frístundaheimilum skólanna tveggja, við viðurkenningum sem fyrstu Réttindaskólar UNICEF á íslandi.

Viðurkenninguna fá þeir nú því þeir hafa uppfyllt forsendur þess að vera réttindaskóli, sem felst meðal annars í því að börnin þekki réttindi sín og fái tækifæri til að tjá sig um umhverfi sitt, meðal annars með barnalýðræði.

Fréttamaður tók nokkur börn á tali sem segja gott að vera í Réttindaskóla því þá þekki allir í skólanum réttindi barna og að Barnasáttmálinn sé góður sáttmáli.

Ævar vísindamaður tók við skilaboðum frá börnunum til ráðamanna á Íslandi, sem hann lofaði að koma til nýrrar ríkisstjórnar þegar hún tekur til starfa. En hvað þurfa ráðamenn að hafa í huga þegar kemur að réttindum barna?

Kannski aðeins að leyfa börnunum að hafa skoðanir á því sem er að gerast í landinu, það skiptir líka máli hvað öllum finnst, ekki bara fullorðnum,“ sagði Eva Júlía Birgisdóttir, nemandi í Flataskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×