Viðskipti innlent

Sker úr um 0% viðmið á láni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vísir
Á mánudag gefur EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit vegna máls sem Sævar Jón Gunnarsson höfðaði gegn Landsbankanum. Sævar tók verðtryggt 630 þúsund króna lán hjá bankanum 19. nóvember 2008 gegn útgáfu skuldabréfs. Skuldabréfinu fylgdi greiðsluáætlun þar sem fram kemur að áætlunin byggi á 0 prósent verðbólgu, núgildandi vöxtum og gjaldskrá bankans sem geti tekið breytingum.

Síðar kom í ljós að greiðslubyrði lánsins reyndist talsvert hærri en ráð var fyrir gert í greiðsluáætluninni, jafnvel þótt hinir breytilegu vextir af láninu hafi lækkað í kjölfar þess að byrjað var að greiða afborganir.

Gengið er út frá því að hækkun afborgana umfram greiðsluáætlun hafi orsakast af verðbótauppreikningi lánsins sem hafði þau áhrif að bæði höfuðstóll og vextir hækkuðu umtalsvert.

Sævar Jón höfðaði mál gegn Landsbankanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn telur vafa leika á því hvernig skýra beri 12. grein laga um neytendalán og hvort heimilt sé, við útreikning heildarlántökukostnaðar neytenda, að miða við 0% verðbólgu og horfa þannig fram hjá þeirri verðbólgu sem er á þeim tíma þegar lánið er tekið. Því var leitað ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum.

Sex spurningum var beint til dómstólsins. EFTA-dómstóllinn hefur þegar svarað fimm þeirra vegna máls sem Gunnar V. Engilbertsson höfðaði gegn Íslandsbanka. Búast má við að svörin í máli Sævars Jóns verði sambærileg hvað þau álitamál varðar. Sjötta spurningin, sem snýr að 0% verðbólguviðmiðinu, er hins vegar ný. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×