Innlent

Skemmtistað á Höfða lokað í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/ktd
Um klukkan eitt í nótt barst lögreglu tilkynning um að unglingar væru inni á skemmtistað á Höfðanum. Var farið á vettvang, öllum vísað út og staðnum lokað. Stúlka sem var inni á skemmtistaðnum neitaði að segja til nafns og að gefa upp heimilisfang. Hún var ekki með skilríki og var vistuð í fangageymslu vegna málsins.

Rétt fyrir klukkan tvö var tilkynnt um mann sem var að ganga í veg fyrir bifreiðar í Vesturbænum. Hann sparkaði svo í leigubíl og braut hliðarspegilinn á bílnum. Maðurinn veittist síðan að leigubílstjóranum þegar hann neitaði að aka honum. Lögreglan handtók manninn og færði í fangageymslu en hann verður yfirheyrður í dag.

Um klukkan þrjú var síðan tilkynnt um karlmann sem var að reyna að koma af stað slagsmálum í miðbænum. Þegar lögregla ætlaði að skakka leikinn þá veittist maðurinn að lögreglu og sló lögreglumann í andlitið. Í dagbók lögreglu segir að eftir nokkurt þóf, þar sem varnarúða var meðal annars beitt, var maðurinn handtekinn og fluttur í fangageymslu lögreglu við Hverfisgötu. Verður hann yfirheyrður síðar í dag vegna málsins.

Þá var nokkuð um að vera hjá lögreglunni í Hafnarfirði þar sem rétt fyrir klukkan tvö var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistað í bænum. Þar voru dyraverðir með mann í tökum sem var mjög drukkinn og búinn að vera með læti inni á staðnum. Hann var vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Um hálftíma síðar var svo tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað í Hafnarfirði. Gerandinn var handtekinn en hann hafði ráðist á mann og rifið og tætt föt hans. Var hann vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður seinna í dag.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×