Innlent

Skemmta sér í borginni um helgina

Viktoría Hermanssdóttir skrifar
Fjölmargt er hægt að gera í höfuðborginni um helgina og ljóst að margir njóta kyrrðarinnar í borginni þessa mesta ferðamannahelgi ársins.

Margir leita til upplýsingamiðstöðvar ferðamanna til þess að leita upplýsinga um það hvað hægt sé að gera sér til skemmtunar. Þar fengust þær upplýsingar að flest söfn, sundlaugar og veitingastaðir væru opnir í borginni um helgina, líkt og aðra daga.  

„Ef einhver spyr hvað eigi að gera hérna í Reykjavík þá segjum við bara nákvæmlega sama og við gerum alla aðra daga,“ segir Harpa Ósk Björnsdóttir upplýsingafulltrúi hjá Upplýsingamiðstöð ferðamanna.

Þeir ferðamenn sem við rákumst á í miðbænum voru misupplýstir um það að framundan væri mesta ferðahelgi ársins og láta það ekki aftra sér fráþví að sækja sér afþreyingu hvort sem það er í höfuðborginni eða utan hennar.

„Við ætlum að sjá hvalina og fara gullna hringinn, sjá eldfjallið, kafa og bara allt,“ segir Marielle frá Hollandi sem verður hér á landi um helgina.

„Ég leigi mér kannski hjól ef veðrið verður gott og ætla bara hafa gaman,“ segir Susan frá Þýskalandi.

En það eru ekki bara ferðamenn í borginni um helgina, það eru líka margir Íslendingar sem kjósa að njóta kyrrðarinnar í höfuðborginni.

„Er þægilegt að vera í borginni um verslunarmannahelgina? „Já, já það er friður. Fáir á ferli,“ segir Bergsveinn Jóhannesson, bílstjóri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×