Innlent

Skemmdu myndasýningu á Laugavegi af samkynhneigðum pörum að kyssast

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Sýningin var skemmd daginn fyrir Gleðigönguna.
Sýningin var skemmd daginn fyrir Gleðigönguna. Vísir/Kristín María
Það var nú ekki skemmtileg sýn sem beið Kristínar Maríu Stefánsdóttur ljósmyndara þegar hún kíkti á útisýningu sína sem stóð á mótum Bankastrætis og Laugavegar á laugardagskvöldið. Hún hafði fengið símtal á föstudagskvöldinu þar sem henni var tilkynnt að skemmdarverk hefðu verið unnin á þremur myndum hennar.

Kristín starfar sem brúðkaupsljósmyndari og hafði í tilefni Hinsegin daga sett upp röð mynda sem hún hafði tekið af samkynhneigðum pörum.

„Við settum upp sýninguna á þriðjudag og hún var látin alveg óáreitt í fyrstu en svo var þetta skemmt aðfaranótt laugardags,“ segir Kristín María.

„Ég hef unnið með svo mörgum fallegum pörum sem brúðkaupsljósmyndari og mig langaði til þess að halda upp á það á Hinsegin dögum.“

Kristín segist efast um að skemmdaverkin hafi verið gerð vegna myndefnisins.

„Ég hugsa að þetta hafi nú bara verið einhverjir rugludallar á djamminu sem hafi misst stjórn á skapi sínu en það væri fínt ef einhver hefði orðið vitni af þessu. Ég er ekkert að fara kæra þetta til lögreglunnar eða neitt slíkt en það er bara svo skrítið að enginn hafi séð þetta.“

Áhugasamir geta séð nokkrar af myndum Kristínu Maríu á síðu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×