Innlent

Skemmdarverk við Melaskóla: Léttu á sér inni í smíðakofa grunnskólabarna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Börnin, sem eru á aldrinum 10-12 ára, hafa unnið hörðum höndum að gerð kofanna. Mikil sorg ríkir því innan hópsins.
Börnin, sem eru á aldrinum 10-12 ára, hafa unnið hörðum höndum að gerð kofanna. Mikil sorg ríkir því innan hópsins. vísir/katla hólm
Skemmdir voru unnar á smíðavelli grunnskólabarna í Melaskóla um helgina. Smiðirnir ungu hafa unnið hörðum höndum að gerð kofa undanfarnar vikur en ekki hefur náðst að hafa uppi á þrjótunum sem spjöllin unnu.

Börnin sorgmædd

Kofarnir voru sumir hverjir nánast jafnaðir við jörðu og var því sjónin sem blasti við starfsfólki smíðavallarins í morgun ófögur. Mikil sorg ríkir innan hópsins að sögn Benedikts Aronar Guðnasonar, leiðbeinanda krakkanna.

„Það er búið að rífa þökin af kofunum, rífa hurðar sem krakkarnir hafa eytt mikilli vinnu í og meira að segja virðist einhver hafa kúkað inn í kofann,“ segir Benedikt í samtali við Vísi. Börnin sem um ræðir eru á aldrinum tíu til tólf ára.

Einhver óprúttinn virðist hafa létt á sér inni í einum kofanum, að sögn Benedikts.vísir/katla hólm
„Þetta er fyrst og fremst sorglegt og leiðinlegt og við bíðum nú bara eftir að börnin, sem eiga í hlut, komi hingað og sæki kofana sína. Svo sjáum við til hvort þau byrji vinnuna upp á nýtt,“ bætir Benedikt við.

Sambærilegt mál í Laugardalnum á dögunum

Benedikt segir skemmdir sem þessar algengar. Hann hafi haft samband við lögreglu sem lítið geti gert í málinu, nema einhver hafi orðið vitni að verknaðnum. Það hljóti þó að vera líklegt. 

„Það hefur mikill hávaði fylgt þessu, þannig að ég vona það að einhver hafi séð hverjir þetta voru sem þetta gerðu,“ segir hann. „Þetta gerðist einnig í Laugardalnum um daginn, eða þegar tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin,“ segir hann að lokum en biðlar til fólks að hafa samband við lögreglu, hafi það einhverjar upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×