Innlent

Skemmdarverk við bústað Sjálfsbjargar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Engin á vegum Sjálfsbjargar var í bústaðnum þessa nótt.
Engin á vegum Sjálfsbjargar var í bústaðnum þessa nótt. mynd/aðsend
„Við vitum ekkert hverjir voru á ferli og unnu þessi skemmdarverk,“ segir Ásta Dís Guðjónsdóttir, formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, um skemmdarverk sem unnin voru a lóð Krika, sumarbústaðar Sjálfsbjargar sem stendur við Elliðavatn, aðfaranótt mánudags.

„Grindverk framan við bústaðinn var brotið og annað grindverk aftan við bústaðinn. Svo voru ummerki um að bíll hefði keyrt upp að húsinu því það voru för í grasinu.“

Sjálfsbjörg rekur félagsstarf fyrir fatlaða í bústaðnum á sumrin og heldur úti starfi um helgar í september. Enginn á vegum Sjálfsbjargar var í bústaðnum þessa nótt.

Ásta fékk símtal á mánudagsmorgun frá nágrönnum Krika þar sem henni var tilkynnt að mikið af glerbrotum væri á lóðinni og að skemmdir hefðu verið unnar. „Ég fór þá sjálf upp eftir að kanna málið og þá blöstu skemmdirnar við mér. Svo fann ég slatta af bjórflöskum í grasinu fyrir neðan bústaðinn,“ segir Ásta.

Hún hafði samband við lögreglu í kjölfarið sem kom á staðinn og tók skýrslur. „Svo höfðum við samband við tryggingafélagið okkar og þá kom í ljós að þeir tryggja ekki það sem er utanhúss hjá okkur.“

Að sögn Ástu er Kriki eini útivistarstaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem sérstaklega er ætlaður fötluðum og aðstandendum þeirra. „Því þykir mér þetta mjög leiðinlegt.“

Ásta biðlar því til skemmdarvarganna að hafi þeir samvisku og vilji aðstoða við uppbyggingu á ný megi þeir hafa samband við Sjálfsbjörg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×