Innlent

Skemmdarverk unnin á velli Golfklúbbs Reykjavíkur

Birgir Olgeirsson skrifar
Var golfbílunum ekið inn á flatir vallarins.
Var golfbílunum ekið inn á flatir vallarins. Vísir/Facebook
Skemmdarverk voru unnin á velli og tækjum Golfklúbbs Reykjavíkur í Grafarholti í nótt. Þar voru fjórir golfbílar teknir ófrjálsri hendi og þeim ekið inn á völlinn. Var ekið yfir flatir og ofan í sandglompur ásamt því að miklar skemmdir voru unnar á einum bílnum. Framkvæmdastjóri klúbbsins segir tjónið verulegt.

„Þetta er mikið tjón,“ segir Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri GR, í samtali við Vísi. Bendir hann á að miklar skemmdir hafi verið unnar á þremur flötum vallarins, en flatirnar eru afar viðkvæmar og mikill kostnaður sem fer í að byggja þær upp og halda við.

Ómar segir golfbílana hafa verið tekna úr geymslum og ekið inn á flöt og glompur átjándu brautar. Einnig var ekið inn á flöt fyrstu holunnar og þeirrar þriðju ásamt glompum.

„Þetta eru bara skemmdarverk og leiðinlegt sérstaklega fyrir okkar góðu félagsmenn að þurfa að upplifa svona skemmdir,“ segir Ómar.

Hann segir starfsmennina eiga eftir að yfirfara upptökur úr eftirlitsmyndavélum og biður þá sem einhverjar upplýsingar geta veitt um málið að hafa samband við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×