Innlent

Skemmdarverk unnin á GÆS: „Látum ekkert á okkur fá“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Það var leiðinlegt að sjá öll glerbrotin og hurðina eyðilagða,“ segir Steinunn Ása.
"Það var leiðinlegt að sjá öll glerbrotin og hurðina eyðilagða,“ segir Steinunn Ása.
„Við gefumst ekki upp. Við kunnum það ekki og viljum það ekki,“ segir Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, einn rekstraraðila kaffihússins GÆS, en töluverðar skemmdir voru unnar á húsinu í gærkvöld. Hurð kaffihússins var eyðilögð og rúða brotin.

„Það var svolítið dapurlegt að sjá þetta. Það er ekki gott að einhver geri eitthvað sem hann á ekki að gera.“

Kaffihúsið GÆS er rekið af hópi fimm manns sem útskrifuð eru úr Háskóla Íslands úr starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlum.

Kaffihúsið var upphaflega í Tjarnarbíói en hefur nú fært sig um set og er komið í lítinn kofa við Bernhöftstorfu í Lækjargötu. Hópurinn málaði kofann sjálfur í húsakynnum Bauhaus og var þaðan fært niður í bæ. Nafn kaffihússins er dregið af einkunnarorðum hópsins: GET-ÆTLA-SKAL.

Steinunn lét þetta þó ekki á sig fá og ætlar að halda ótrauð áfram. Þrátt fyrir voðaverkin heldur reksturinn óbreyttur áfram, og verður ný hurð sett upp eftir helgi.

„Ég vil bara ekki að einhver geri eitthvað svona ljótt. En okkur gengur rosalega vel, höfðum opið í allan dag og látum ekkert á okkur fá,“ segir Steinunn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×