Innlent

Skemmdarverk í Breiðholti: "Klesst´ann“ þegar þeir komu úr varðhaldi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Thelma Lind var heima hjá sér þegar skemmdarverkin áttu stað. Henni þykir miður að þurfa að bera kostnaðinn af tjóninu sjálf.
Thelma Lind var heima hjá sér þegar skemmdarverkin áttu stað. Henni þykir miður að þurfa að bera kostnaðinn af tjóninu sjálf. Vísir/Thelma
„Það að heyra að þeir séu alveg lausir við eftirsjá er eiginlega verst,“ segir Thelma Lind Smáradóttir en hún er ein þeirra sem lenti í því að fjórir menn unnu skemmdarverk á bíl hennar í Breiðholti síðastliðna helgi. „Ég spurði lögregluna hvort þeir hefðu séð að sér og hann sagði að sá elsti hefði virst sjá mest eftir þessu, hann játaði allt strax og svona. Hinir voru gjörsamlega samviskulausir. Voru bara að kless'ann á hvor öðrum þegar þeir komu úr varðhaldi.“

Um tuttugu bílar urðu fyrir barðinu á mönnunum um helgina. Mennirnir eru frá aldrinum 16 til 22 ára og virðist engin ástæða liggja að baki skemmdarverkunum. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu.

Tjónið Thelmu að greiða

Málið versnaði til muna þegar Thelma áttaði sig á því að kostnaður vegna skemmdarverkanna myndi falla á hana sjálfa. „Lögreglan segir við mig að þetta sé í raun og veru mitt tjón,“ segir hún.

Þrátt fyrir að vitað sé hverjir mennirnir voru sem unnu tjónið á bíl hennar, þeir hafi verið handteknir og að hún hafi lagt fram kæru í morgun mun hún að öllum líkindum þurfa að bera kostnað af skemmdarverkunum sjálf.

Sjá einnig: Brutu rúður í bílum í Breiðholti

„Ég spurði lögregluna hvernig þetta mætti vera,“ segir Thelma Lind og fékk hún þá þær útskýringar að mennirnir væru eignalausir og því ekki borgunarmenn fyrir tjóninu. „Það náttúrulega sökkar að tjónþolar þurfi að bera kostnað af þessu vegna þess að þeir eru ekki borgunarmenn fyrir þessu, það sendir bara þau skilaboð út í samfélagið að ef þú átt ekkert þarftu ekki að bera neina virðingu fyrir eignum annarra,“ segir Thelma Lind ósátt.

„Þetta er hin blákalda staðreynd“

Staðan sem upp er komin er í raun ekki óalgeng. Til þess að tjónþoli fái greiddar skaðabætur úr hendi þess sem var valdur af tjóninu þarf fyrst að kæra einstaklinginn og leggja fram bótakröfu hjá lögreglu. Síðan þarf að liggja fyrir dómur um skaðabótaskyldu tjónvalds.

Tjónþoli getur gert kröfu á grundvelli dómsins en ef sá sem olli tjóninu á enga fjármuni er fjárnám dæmt árangurslaust og tjónþoli situr eftir með tjón sitt. Kröfunni er hægt að halda á lífi, hún rennur úr gildi eða fyrnist eftir fjögur ár, en það kostar bæði tíma og peninga.

„Þetta er hin blákalda staðreynd,“ segir Sumarliði Guðbjörnsson, sérfræðingur í ökutækjatjónum hjá Sjóvá. Hann segir mikið af fólki sitja uppi með tjón á eignum sínum vegna þess að tjónvaldar eru ekki borgunarmenn fyrir tjóninu. Hann bendir hins vegar á að kaskótrygging nái yfir skemmdarverk af því tagi sem Thelma Lind lenti í. Að auki greiða tryggingarnar rúðutjón hvort sem um kaskótryggðan aðila er að ræða eða ekki.

Thelma Lind var ekki kaskótryggð en bíll hennar er 13 ára gamall. Hún er tryggð hjá Sjóvá og fær því rúðuna bætta upp að ákveðnu marki en hvað annað tjón vegna skemmdarverkanna varðar stendur hún uppi með sjálf.

„Það eina sem ég gerði „rangt“ var að vera heima hjá mér á föstudagskvöldi,“ segir hún ósátt.

Uppfært 4. maí kl. 17.59: Aðspurð segist Thelma hafa talið að forráðamenn drengsins sem er undir 18 ára aldri séu ábyrgir fyrir tjóninu. Hana grunar þó að aðstæður drengsins séu með þeim hætti að tjónið fáist ekki bætt með þeim leiðum. Þetta byggir hún á upplýsingum frá lögreglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×