Erlent

Skemmdarvargar eyðilögðu stíflu í Kaliforníu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mikill vatnsskortur hefur verið í ríkinu undanfarið.
Mikill vatnsskortur hefur verið í ríkinu undanfarið. Vísir/Getty Images
Skemmdarvargar eyðilögðu uppblásna stíflu í Kaliforníu með þeim afleiðingum að 190 milljón lítrar af vatni töpuðust. Mikill vatnsskortur er í ríkinu.

Lögreglan í Kaliforníu segir að skemmdarvargar hafi unnið skemmdir á stíflunni sem ekki sé hægt að laga en hún var staðsett í San Francisco. Vatnið sem tapaðist þegar stíflan eyðilagðist hefði getað séð 500 heimilum fyrir vatni í heilt ár.

Embættismenn í sýslunni þar sem stíflan var staðsett segja að tjónið sé mikið, jafnvel þó að ekki hefði verið vatnsskortur eins og nú.

Samkvæmt lögreglu voru skemmdirnar unnar á fimmtudag og ljóst að ekki um slys hafi verið að ræða. Enginn hefur þó verið handtekinn vegna skemmdarverkanna.

Það kostar um þrjár milljónir dala, jafnvirði 400 milljóna króna, að reisa stífluna að nýju.

Ekki er búist við því að skemmdarverkið hafi langtímaáhrif á vatnsframboð í Kaliforníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×