Innlent

Skelfing greip um sig á Allanum

Skelfing greip um sig meðal barna og fullorðinna þegar eldur kviknaði í skemmtistaðnum Allanum á Siglufirði á miðri þrettándaskemmtun þar í gærkvöldi. Mildi þykir að sjö ára stúlka, sem var við eldsupptökin, skuli hafa sloppið ómeidd.

Mikill reykur barst inn á staðinn og eldvarnarkerfið glumdi, þegar gestirnir, líklega um það bil eitt hundrað, þustu út, hver sem betur gat. Svo vel vildi til að fjórir slökkviliðsmenn voru á ballinu og skipulögðu þeir rýmingu hússins þannig að enginn meiddist í troðningi. Slökkvilið Fjallabyggðar kom brátt á staðinn og slökkti eldinn, sem átti upptök í lagergeymslu í húsinu. Þar voru meðal annars geymdir flugeldar og mun litla stúlkan hafa verið þar að fikta með eldspýtur og kveikt í einum þeirra, með þeim afleiðingum að það kviknaði í fleirum. Í stað þess að stirðna af skelfingu, brást hún skjótt við og forðaði sér út úr eldhafinu. Hún kenndi sviða í augum og andliti og var flutt á heilsugæsluna til aðhlynningar, en mun ekki hafa hlotið varanlegan skaða. Að sögn Ólafíu Guðmundsdótttur veitingamanns, er allt sviðið og blautt inni i geymslunni og reykur barst um allt húsnæðið, en vaskur hópur vann að hreinsun í alla nótt.

Fulltrúar Rauða krossins og slökkviliðsstjórinn í Fjallabyggð heimsóttu grunnskólann í morgun til að fara yfir atvikið með börnunum og róa þau, en mörg þeirra munu hafa átt erfitt með svefn í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×