Viðskipti erlent

Skelfilegar aðstæður hjá birgjum Nestlé í Taílandi

sæunn gísladóttir skrifar
Dæmi eru um að fórnarlömb mansals starfi í rækjuiðnaðinum í Taílandi.
Dæmi eru um að fórnarlömb mansals starfi í rækjuiðnaðinum í Taílandi. vísir/epa
Matvælaframleiðandinn Nestlé hefur tilkynnt að birgjar sjávarafurða þeirra hafi misnotað starfsmenn sína í Taí­landi. Nestlé er eitt af fjölmörgum fyrirtækjum sem á í slíkum vandræðum í Taílandi.

Taíland er stærsti rækjuframleiðandi heims. Margir sem vinna í rækjugeiranum eru fórnarlömb mansals. Starfsfólkið vinnur við hættulegar aðstæður, býr í lélegu húsnæði og er jafnvel stórskuldugt þar sem það þarf að greiða háar fjárhæðir til þess að fá vinnu við að veiða og vinna fisk, sem endar svo hjá fyrirtækjum á borð við Nestlé. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Verité, bandarískur hópur sem beitir sér fyrir öruggum, sanngjörnum og löglegum vinnuskilyrðum , vann fyrir fyrirtækið.

Nestlé er einn stærsti matvælaframleiðandi heims, og framleiðir meðal annars Perrier, Haagen-Dazs, Cheerios og Nescafé.

Í nýju skýrslunni er máluð dökk mynd af starfsmönnum birgja þess í Taílandi. Þar kemur fram að margir hafa verið ginntir til starfa í geiranum með gylliboðum en hafi svo oft ekki fengið greidd laun á meðan haldið var í skilríkin þeirra.

Nestlé er ekki fyrsta sem sakað er um sambærilegt framferði. CNN Money greinir frá því að í ágúst var lögð fram kæra í Kaliforníu gegn Costco þar sem þess var krafist að fyrirtækið merkti rækjur sem það seldi sem framleiðslu fólks í ánauð. Einnig var gerð krafa um að Costco hætti að kaupa rækjur af taílenska birginum.

Á mánudaginn sögðu talsmenn Nestlé í tilkynningu að fyrirtækið væri að vinna að því að bæta aðstöðu starfsfólks, meðal annars með því að fylgjast með hvaðan hráefni í vörur þeirra kemur, með því að þjálfa skipstjóra veiðibáta og með auknu eftirliti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×