Lífið

Skautadrottningar á leið til Kanada

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Ellý Rún og Herdís Heiða eru báðar heillaðar af skautaíþróttinni og æfa fimm sinnum í viku.
Ellý Rún og Herdís Heiða eru báðar heillaðar af skautaíþróttinni og æfa fimm sinnum í viku. Vísir/Ernir
Hvenær kynntust þið skauta­íþróttinni, stelpur? Ellý: Þegar ég var sjö ára fór ég á skauta með mömmu minni og systur og mér fannst svo gaman að ég byrjaði að æfa.

Herdís: Ég byrjaði fimm ára. Það heillaði mig að sjá hvað maður getur gert mikið. Við æfum fimm sinnum í viku en samt ekki saman.

Hafið þið tekið þátt í sýningum?

Herdís: Já, núna er að koma vorsýning. Allir í félaginu taka þátt í vorsýningunni á hverju ári og fyrir hana semjum við dansa og skautum saman í hóp og svo eru líka jólasýningar þannig að það eru alltaf tvær rosa flottar sýningar á ári.

Ellý: Við keppum líka stundum. bæði hér í Reykjavík og á Akureyri, og nú erum við að fara til Kanada í æfingabúðir. Við verðum í viku og þar verður æft frá 8 til 2 og svo er frítími. Það verður gaman að vera með vinkonum og við förum líka í svaka stóran skemmtigarð.

Herdís: Já, við verðum hjá þjálfara sem hefur þjálfað keppendur fyrir Vetrarólympíuleika. Við förum 17 stelpur saman með nokkrum foreldrum, þetta verður mjög gaman.

Eigið þið fleiri áhugamál? Ellý: Ég æfi á þverflautu og spila í Skólahljómsveit Kópavogs.

Herdís: Ég æfi líka á klarinett og var á píanói áður. Mér finnst gaman að spila tónlist.

Hvað ætlið þið svo að gera í sumar? Ellý: Ég ætla að vera í skautasumarbúðum í júlí og ágúst. Við förum líka til Grundarfjarðar á Góða stund og að hitta ættingja okkar.

Herdís: Já, það er auðvitað Kanadaferðin og svo förum við líka í sumarbústað með fjölskyldunni eins og vanalega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×