Erlent

Skaut svartan táning sextán sinnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Laquan McDonald var skotinn sextán sinnum.
Laquan McDonald var skotinn sextán sinnum.
Lögreglumaður í Chicago í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir morð af fyrstu gráðu eftir að hafa skotið svartan táning, Laquan McDonald, sextán sinnum. Pilturinn, sem var 17 ára gamall, lét lífið og myndband af atvikinu hefur verið birt vegna ákærunnar.

Fjölmenn mótmæli voru á götum Chicago borgar eftir að myndbandið var birt, en skotárásin átti sér stað í október í fyrra.

Lögregluþjónninn Jason Van Dyke hefur verið ákærður fyrir morð af fyrstu gráðu.Vísir/Getty
Lögreglan segir að Laquan hafi verið með hníf þar sem hann var á gangi á fjölförnum vegi. Á myndbandi af atvikinu, sem birt var í gærkvöldi, má sjá lögreglumann nálgast Laquan og skjóta hann til bana. Jason Van Dyke skaut Laquan sextán sinnum og má greinilega sjá að stórum hluta skotanna var skotið eftir að pilturinn féll í jörðina. Van Dyke hefur nú verið ákærður fyrir morð.

Samkvæmt frétt Vox skaut Van Dyke á Laquan í fjórtán til fimmtán sekúndur og var hann eini lögreglumaðurinn sem hleypti af byssu sinni. Hann gerði það innan við 30 sekúndum eftir að hann kom á vettvang. Minnst tvö af skotunum sextán fóru í bak piltsins.

Lögreglan segir að Laquan hafi ekki fylgt skipunum um að leggja frá sér hnífinn. Rannsókn leiddi í ljós að hann var undir áhrifum ofskynjunarlyfsins PCP.

Aðgerðarsinnar og blaðamenn hafa barist fyrir því að fá myndbandið birt, samkvæmt frétt BBC. Stéttarfélag lögreglumanna í Chicago var alfarið á móti birtingunni og segir það hafa áhrif á réttarhöldin.

Saksóknarar segja að Van Dyke hafi ekki verið í rétti þegar hann skaut Laquan þar sem pilturinn var ekki að ógna lögreglumönnunum né að nálgast þá.

Vert er að vara lesendur við myndbandinu hér að neðan, þar sem það getur vakið óhug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×