Erlent

Skaut sig í höfuðið við að taka sjálfu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjálfan hefur reynst mörgum hættuleg og fjöldi manns lætur lífið á ári hverju við athæfið.
Sjálfan hefur reynst mörgum hættuleg og fjöldi manns lætur lífið á ári hverju við athæfið. Vísir/GETTY
Indverskur táningur skaut sig fyrir slysni í höfuðið við að taka sjálfu. Hinn fimmtán ára gamli Ramandeep Singh var að reyna að ná mynd af sér með skammbyssu föður síns þegar skot hljóp úr byssunni. Hann var fluttur á sjúkrahús og talið er að hann muni lifa slysið af.

Faðirinn er með leyfi fyrir byssunni, en lögreglan segir þó að hún hefði ekki átt að vera hlaðin og hefði átt að vera í læstri hirslu.

Fjöldi manns lætur lífið við það að reyna að ná góðri sjálfu á ári hverju á heimsvísu. Þó virðist sem að um sérstaklega stórt vandamál sé að ræða í Indlandi. Samkvæmt Sky News hefur lögreglan í Mumbai beðið yfirvöld borgarinnar að setja upp skilti í borginni þar sem varað er við slíkum myndatökum. Búið er að bera kennsla á 16 staði í Mumbai sem þykja hættulegir fyrir sjálfutökur.

Nú síðast í janúar lést maður í borginni þar sem hann reyndi að bjarga stúlku sem hafði fallið í sjóinn við það að taka sjálfu. Í sama mánuði féll 20 ára maður af Reasi virkinu í Jammu og Kashmir og lét lífið. Þá lést ungur maður í febrúar þegar hann stillti sér upp fyrir framan lest á ferð og reyndi að ná mynd af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×