Viðskipti innlent

Skattsvikarar fái ár til að borga

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Starfshópur hefur skilað tillögum til fjármála- og efnahagsráðherra um tækifæri fólks til að gefa ríkisskattstjóra upp eignir sínar erlendis sem ekki hafa verið taldar fram hingað til.
Starfshópur hefur skilað tillögum til fjármála- og efnahagsráðherra um tækifæri fólks til að gefa ríkisskattstjóra upp eignir sínar erlendis sem ekki hafa verið taldar fram hingað til. Vísir/Anton
Í tillögum starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er gert ráð fyrir því að hver sá sem óskar að eigin frumkvæði eftir því að greiða skatt af áður óframtöldum tekjum eða eignum erlendis skuli ekki sæta refsingum. 

Reglurnar eiga að gilda frá 1. júlí næstkomandi til 30. júní á næsta ári og hafa því þeir sem svikið hafa undan skatti með því að fela eignir erlendis, sem og aðrir sem eiga vantaldar eignir utan landsteinanna, ár til að greiða.

Reglurnar voru unnar af starfshóp um gerð griðareglna sem átti að vinna drög að frumvarpi um griðarreglur og greinargerð um lagaheimildir yfirvalda til að sporna gegn skattsvikum. 

Samkvæmt tillögunum á ríkisskattstjóri að leggja álag á vantalda skattstofna sem koma í ljós eftir þessari leið. Ekki verður heimilt að semja um greiðslurnar og eiga þær að vera greiddar að fullu 10 dögum eftir dagsetningar endurákvörðunar skattstjóra um álagningu.

Í tilkynningu um málið frá fjármála- og efnahagsráðherra segir að ákveðið hafi verið að frumvarpið um málið verði fullunnið og kynnt í ríkisstjórn við fyrsta tækifæri. 

Í starfshópnum áttu sæti Ása Ögmundsdóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem jafnframt var formaður, Guðni Ólafsson, fjármálastjóri embættis tollstjóra, Guðrún Jenný Jónsdóttir, sviðsstjóri alþjóðasamskipta ríkisskattstjóra og Lísa K. Yoder, lögfræðingur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×