Viðskipti innlent

Skattrannsóknarstjóri hefur gert munnlegt samkomulag við huldumann

ingvar haraldsson skrifar
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir munnlegt samkomulag liggja fyrir.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir munnlegt samkomulag liggja fyrir. vísir
Munnlegt samkomulag liggur fyrir milli skattrannsóknarstjóra og huldumanns sem boðið hefur embættinu gögn um tengsl Íslendinga við félög í skattaskjólum. Samkomulagið kveður á um að 200 þúsund evrur, um 37 milljónir íslenskra króna, verði greiddar fyrir gögnin sem alls telja 416 mál.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að nú sé verið að ganga frá skilmálum um hvernig greiða eigi fyrir gögnin og hvernig þau verði afhent. Í kjölfarið verði skrifað undir skriflegt samkomulag þess efnis.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að hann ætti von á að samningar næðust fyrir lok þessa mánaðar.



Sjá einnig: Ríkisstjórnin veitir 37 milljónum til kaupa á skattagögnum

Bryndís segir ekki ljóst á þessari stundu hvort embættið muni þurfa aukið fjármagn til að vinna úr gögnunum. Hún á þó ekki von á öðru en fjármagn fáist sé þess þörf. „Ég finn ekki fyrir neinni tregðu í þá áttina,“ segir Bryndís.

Grið þótt hafa fleiri kosti en galla

Starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins skilaði nýlega tillögum um að þeir sem óska að eigin frumkvæði eftir því að greiða skatt af áður óframtöldum tekjum eða eignum erlendis skuli ekki sæta refsingu. Lögin eigi þá að gilda frá 1. júlí á þessu ári til 30. júní á næsta ári.

Bryndís segir það stjórnmálamanna að taka ákvörðun um hvort tillögurnar verði að lögum. „Þetta er auðvitað leið sem ríkin öll í kringum okkur hafa farið og þótt hafa fleiri kosti en galla,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Ekki búið að kaupa skattagögnin

„Málið er í vinnslu og ég svona ætla að það sé að styttast í þetta,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×