Skoðun

Skattkerfisbreytingar eru nauðsynlegar

Margrét Sanders skrifar
Nú þegar önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar stendur fyrir dyrum, er nauðsynlegt að ítreka enn einu sinni mikilvægi þess að þær skattkerfisbreytingar, sem lagt er upp með, nái fram að ganga.

Um langa hríð hefur sá mikli munur sem er á efra og neðra þrepi í virðisaukaskatti, verið atvinnulífinu þyrnir í augum. Þar fara skoðanir atvinnulífsins saman við skoðanir bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD, en þessir aðilar hafa oft bent á þá staðreynd að bilið milli skattþrepanna hér á landi sé óvenju mikið í alþjóðlegum samanburði. Þetta mikla bil mismuni atvinnugreinum á óréttmætan hátt, eftir því í hvoru þrepi virðisaukaskattsins varan eða þjónustan lendir.

Burt með vörugjöldin

Sá skattur sem hvað lengst hefur þó verið þyrnir í augum verslunarinnar eru vörugjöldin, sem sett voru á sem tímabundinn skattur við inngöngu Íslands í EFTA árið 1970. Það er eins með vörugjöldin og aðra tímabundna skatta að þeir hafa tilhneigingu til að endast allra skatta lengst. Það er því verulegt fagnaðarefni að stjórnvöld gera nú ráð fyrir að afnema almenn vörugjöld með öllu, lækka efra þrep virðisaukaskatts þar sem bróðurpartur allrar vöru og þjónustu er, jafnframt því sem boðað er að neðra þrep virðisaukaskattsins verði hækkað.

Fyrir afnámi vörugjalda hafa Samtök verslunar og þjónustu barist um langa hríð. Stóri ókosturinn við vörugjöldin er að þau eru „falinn skattur“, m.ö.o. þau eru almennt ekki sýnileg í verði vörunnar til neytandans.

Svo það sé nú rifjað upp þá ber stór hluti byggingarefnis og þeirra vara sem fara inn á baðherbergi 15% vörugjald, öll raftæki sem fara inn í eldhús og þvottahús 20%, og stór hluti almennra raftæka eins og t.d. sjónvarpstækja ber 25% vörugjald.

Eins er vörugjald lagt á ýmiss konar matvöru, sem á einhvern óskiljanlegan hátt hefur verið fellt undir samheitið sykurskattur. Sem dæmi um matvörur sem bera „sykurskatt“ eru vörur á borð við morgunkorn, tómatsósu og niðursoðna ávexti. Álagning vörugjalds á matvörur er oft tilviljanakennd og framkvæmdin ótrúlega flókin bæði fyrir verslunina og tollayfirvöld. Það yrði því mikið heillaspor fyrir allan almenning ef loks tækist að afnema almennu vörugjöldin með öllu. Með því móti næðist fram sambærileg lækkun á vöruverði, jafnframt því sem byggingarkostnaður myndi lækka verulega.

Einhliða umræða

Umræða undanfarinna vikna um fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar hefur verið mjög einhliða. Umræðan hefur nær eingöngu snúið að hækkun neðra þreps virðisaukaskattsins og áhrifum þeirrar breytingar sérstaklega. Það er bagalegt. Æskilegt hefði verið ef umræðan, m.a. á Alþingi, fjallaði um heildaráhrif fyrirhugaðra skattkerfisbreytinga á hag almennings. Með því móti hefði fólk betur getað áttað sig á til hvers hinar fyrirhuguðu breytingar muni leiða, en samkvæmt öllum útreikningum munu breytingarnar hafa jákvæð áhrif á nær alla tekjuhópa. Hafi breytingarnar neikvæð áhrif fyrir einstaka hópa, ætti að mæta því með mótvægisaðgerðum fyrir þá hópa sérstaklega, frekar en að kasta frá sér þessu tækifæri sem nú liggur á borðinu.

Verslunin styður breytingarnar

Samtök verslunar og þjónustu lýstu strax yfir stuðningi við fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar, þegar þær voru kynntar sl. haust. Að mati samtakanna eru þessar breytingar í öllum aðalatriðum mikið framfaraspor og stefna í átt að einfaldari og sanngjarnari skattheimtu en verið hefur. Það ætti því að vera sameinginlegt hagsmunamál almennings og verslunarinnar í landinu að þessar breytingar nái fram að ganga. Það er nefnilega mikilvægast fyrir alla aðila að skattkerfið í landinu sé gagnsætt og sanngjarnt og það sem ekki er síður mikilvægt, ódýrt í framkvæmd.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×