Innlent

Skattatilboð til leigjenda eins og hver annar brandari

Höskuldur Kári Schram skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, efast um að fólk á leigumarkaði hafi fjárhagslegt svigrúm til að nýta sér boðaðan skattaafslátt ríkisstjórnarinnar í tengslum við skuldaaðgerðirnar. Hann segir að tilboðið sé einungis sett fram til að blása aðgerðinar upp.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar um skuldaaðgerðir er lagt til að fólk á leigumarkaði geti nýtt sér skattleysi séreignasparnaðar til að greiða inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning. Þannig geti leigjendur byggt sér upp höfuðstól til fasteignakaupa.

Steingrímur segist fagna því að tillögurnar séu komnar fram en telur að mörgum spurningum sé enn ósvarað. Þá segir hann aðgerðina fyrst og fremst gagnast tekjuhærri hópum. Steingrímur er gestur í þættinum Pólitíkin á Vísi.

„Veikleiki þessar tillagna er hinn félagslegi þáttur. Þetta mun fyrst og fremst gagnast tekjuhærri hópunum. Svo er það eins og hver annar brandari að tala um að leigjendum geti staðið til boða að leggja einhvern húsnæðissparnað inn skattfrjálst með þessum hætti. Ætli það verði nú margir sem búa í félagslegu leiguhúsnæði sem geta tekið 4 prósent af launum sínum til hliðar í svona húsnæðissparnað?  Þetta er bara gert til að blása aðgerðina upp og telja okkur trú um að þetta nái til 80% heimila í landinu. Að sjálfsögðu verður það ekki þannig. Þetta er miklu þrengri hópur sem fær þarna úrlausn,“ segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×