Viðskipti innlent

Skattar hækkuðu um 59 milljarða: Viðskiptaráð vill draga úr umsvifum hins opinbera

Bjarki Ármannsson skrifar
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Viðskiptaráð Íslands hvetur til þess að stjórnvöld dragi úr umsvifum hins opinbera, sérstaklega í ljósi þess að Seðlabankinn spáir þenslu hérlendis á næstu árum. Í ríkisreikningi fjársýslunnar fyrir árið 2014 kemur fram að skatttekjur ríkissjóðs jukust um 59 milljarða á milli ára.

Þá er einnig gerð athugasemd við það að launakostnaður ríkisins jókst um sex prósent á milli ára og önnur rekstrargjöld ríkisins um fjögur prósent. Útgjöld ríkissjóðs jukust samtals um sautján milljarða króna á milli ára og segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði að aðhaldi í ríkisfjármálum virðist vera lokið í bili.

Sjá einnig: 46,4 milljarða króna tekjuafgangur af ríkissjóði

„Það mun seint teljast sjálfbær þróun að auka ríkisútgjöld á sama tíma og opinberar skuldir eru tvisvar til þrisvar sinnum hærri en hjá öðrum Norðurlöndum og hækkandi meðalaldur reynist Íslendingum sífellt þyngri baggi,“ segir í tilkynningunni.

„Að mati Viðskiptaráðs eru fjölmörg verkefni á höndum hins opinbera í dag sem einkaaðilar eru betur til þess fallnir að leysa af hendi. Það getur hvort heldur verið í formi aukins einkarekstrar eða minni aðkomu hins opinbera á ákveðnum sviðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×