Innlent

Skattagögn skilað 143 milljónum í endurálagningu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Kaup íslenskra stjórnvalda á skattagögnum í apríl 2015 hafa borgað sig margfalt í formi endurálagningar Ríkisskattstjóra. Alls nemur endurálagning vegna Panamaskjalanna rúmlega 140 milljónum króna en reiknað er með að sú tala muni hækka umtalsvert.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykkti á fundi sínum í apríl árið 2015 að veita skattrannsóknarstjóra aukafjárveitingu vegna kaupa á skattagögnum frá erlendum aðila. Gögnin voru talin geyma upplýsingar um tengsl Íslendinga við félög í lágskattaríkjum og þannig nýtast íslenskum skattayfirvöldum til að upplýsa um möguleg skattaundanskot.

Kaupin voru gagnrýnd, meðal annars vegna þess að um væri að ræða stolin gögn en einnig vegna óvissu um hvort kaupin myndu borga sig fjárhagslega. En hverju hafa þessar upplýsingar skilað?

143 milljónir í endurálagningu

Eftir að skattayfirvöld fengu gögnin afhent tók skattrannsóknarstjóri til rannsóknar skattskil um 30 þeirra Íslendinga sem í þeim fundust. Að öðru leyti voru gögnin send áfram til ríkisskattstjóra vegna gruns um athugunarverð skattskil.

Kaupverðið gagnanna var 37 milljónir króna.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Ríkisskattstjóra um hversu miklum fjármunum þessi gögn hafa skilað í formi endurálagningar þar sem aðilar sem fram koma í skjölunum hafa ekki gert réttilega grein fyrir skattgreiðslum sínum.

Í svari ríkiskattstjóra er vísað til endurálagningar vegna Panamaskjalanna, en með því er annars vegar átt við gögnin sem skattrannsóknarstjóri keypti en einnig gögn sem bárust í kjölfar lekans frá starfsmanni lögmannsstofunnar Mossack Fonseca í Panama.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti Ríkisskattstjóra hafa hækkanir á opinberum gjöldum af endurálagningu vegna Panamaskjalanna numið rúmlega 143 milljónum króna (hundrað fjörtíu og þremur milljónum króna) sem er tæplega fjórföld sú upphæð sem skattagögnin voru keypt á 2015. Að stærstum hluta er um að ræða hækkanir vegna gagnanna sem keypt voru þó erfitt sé að greina það með nákvæmum hætti.

Mun hækka umtalsvert

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er reiknað með að þessi tala muni hækka umtalsvert. Enn þá eigi eftir að klára mörg hundruð mál og því langt þangað til að endanleg tala liggur fyrir. Eitt liggur þó fyrir – kaupin á skattagögnunum í apríl 2015 borguðu sig, að minnsta kosti fjárhagslega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×