Innlent

Skátar fagna fánafrumvarpi forsætisráðherra

Skátar segja að vegur íslenska fánans fari vaxandi, en hann átti undir högg að sækja; skýtur hann stoðum undir þjóðarstoltið.
Skátar segja að vegur íslenska fánans fari vaxandi, en hann átti undir högg að sækja; skýtur hann stoðum undir þjóðarstoltið. VISIR/GVA
Við fyrstu sýn líst skátum vel á nýtt frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Júlíus Aðalsteinsson er fræðslumálastjóri hjá Bandalagi íslenskra skáta og hann segir að skátar hafi reynt að hvetja til réttrar og þess vegna mikillar notkunar á íslenska fánanum – þegar það á við.

Sigmundur Davíð hefur kynnt ríkisstjórn nýtt frumvarp um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið þar sem heimildir til notkunar á íslenska fánanum við markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu eru rýmkaðar. Reglur verða einfaldaðar, ekki þarf að sækja um leyfi til að nota þjóðfánann við markaðssetningu á vörum og þjónustu sem er íslensk að uppruna.

Þjóðarstolt hefur aukist

Skátar hafa í gegnum tíðina stillt sér upp sem sérstakir varðmenn íslenska fánans og við fyrstu sýn lýst þeim nokkuð vel á frumvarp Sigmundar Davíðs. Júlíus Aðalsteinsson skáti segir að staða fánans hafi verið að styrkjast að undanförnu.

„Almennt held ég að við séum jákvæð fyrir þessum breytingum skátar, og við höfum í um það bil tuttugu ár unnið skipulega að því að auka þekkingu fólks á notkun fánans. Ég held að þetta sé gott innlegg í það að hún verði jákvæðari. Hún hefur þótt nokkuð stíf, stundum.“

Staða íslenska fánans hefur verið að styrkjast undanfarin ár, að mati Júlíusar:

„Það kom nú kannski sérstaklega í kjölfar hrunsins 2008. Þá fóru menn að flagga víða á hverjum degi til að skjóta einhverjum rótum undir þjóðarstoltið. Ég held, að í framhaldinu, hafi verið meiri vakning fyrir þessu að við eigum fána og eigum bara að vera stolt af því að nota hann.“

Á tímabili var fánanum ekki sýnd næg virðing

Finnst þér þá að fáninn hafi átt undir högg að sækja á tímabili?

„Jahhh, kannski var ekki mikil virðing borin fyrir honum á tímabili. Eða, hún hefði alla veganna mátt vera meiri.“

Nú hafa komið upp mál þar sem menn hafa farið frjálslega með fánann, jafnvel hafa komið upp mál þar sem menn brjóta fánalög. Þú nefndir áðan að þetta hafi verið helst til stíft. Hvernig lýsir það sér þá?

„Ef við berum okkur saman við margar aðrar þjóðir þá höfum við verið með fremur stífar reglur um fánatíma og því um líkt. En, það mætti rýmka það og held ég, ef ég man rétt, annað hvort í vetur eða í fyrra vetur, var lagt fram á þingi frumvarp um rýmkaðan fánatíma. Við skiluðum inn þeirri umsókn þar sem við hvöttum til að það yrði samþykkt.“

Alls ekki hafa fánann rifinn og skítugan

Hvað er það sem alls ekki má gera með fánann?

„Það er náttúrlega fyrst og fremst bara að, ekki sýna honum þá óvirðingu að nota hann í eitthvert rusl. Þannig að menn séu að ganga illa um hann, hafa hann skítugan og rifinn og eitthvað því um líkt. Það er fyrst og fremst það sem við hvetjum fólk til að varast,“ segir Júlíus hjá Bandalagi íslenskra skáta.

Kjarni málsins er sem sagt sú að virðing fyrir fánanum hefur farið vaxandi, að mati skáta og menn eru farnir að nota hann talsvert miklu meira en var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×