Skoðun

Skápur nr. 106

Elmar Hallgríms Hallgrímsson skrifar
„Þetta er minn skápur, skápur nr. 106“, heyrði ég eldri mann segja við mig nýverið. Við vorum staddir í búningsklefanum í World Class í Laugum og þarna vorum við tveir félagarnir með skápa hlið við hlið og ekki önnur sála á svæðinu. Ég man að ég hugsaði með mér, vá, hvað þessi er skrítinn. Mér þótti það alveg magnað að hann þurfti að planta sér við hliðina á mér. Að sjálfsögðu datt mér ekki í hug að færa mig enda var ég þarna á undan og það eru ákveðin lögmál sem gilda í búningsklefum. Maður færir sig ekki ef maður kemur á undan, það er veikleikamerki, og það er eitthvað sem maður vill ekki sýna í búningsklefanum. Ég hugsaði með hryllingi hvort ég og eldri maðurinn myndum svo klára æfinguna okkar á sama tíma, við tveir saman aftur í klefanum, hlið við hlið, sveittir og önnur tilheyrandi ólykt. Vonandi ekki hugsaði ég með mér, vonandi ekki.

Ég rölti upp í æfingasalinn og sá að hlaupabrettið mitt var laust. Ég tók mínar 15 mínútur á brettinu með FM 957, eins og ég hlusta alltaf á í ræktinni, og fór því næst í gegnum æfingarútínuna mína sem tók sínar 45 mínútur eins og vanalega. Ég var tiltölulega heppinn að þessu sinni og fáir sem þvældust fyrir mér í tækjunum þegar ég þurfti á þeim að halda. Það er nefnilega ákveðin rútína í gangi í ræktinni og ég þarf að taka æfingarnar í sömu röð í hvert sinn. Loks teygði ég í 10 mínútur eins og ég geri alltaf eftir æfingar. 

Eftir æfinguna sá ég að óttinn var ekki á rökum reistur, hvergi var eldri manninn að sjá og ég gat einn notið þess að vera í horninu mínu þar sem skápurinn minn er. Ég opnaði skápinn minn nr. 108, sem ég að sjálfsögðu nota alltaf þegar ég mæti í ræktina, fullur af sjálfstrausti enda vel heppnuð æfing að baki. Þá var komið að sturtuferðinni sem er alltaf nokkuð heilög hjá mér í ræktinni og er sama sturtan að sjálfsögðu valin í hvert sinn, enda mín sturta. Þar notast ég við hið mitt þriggja fasa kerfi, en í því felst að í fyrsta fasa á sér stað almenn skolun og þá er sápa borin á, í öðrum fasa er sápan skoluð af og í þriðja fasa á sér stað afslöppun í sturtunni. Eftir ræktina fékk ég mér svo eins og venjulega miðlungstóran Grænan ofurboozt, fullan af spínati og engifer.

Í bílferðinni heim hugsaði ég til þess hve erfitt það hlýtur að vera fyrir suma að þurfa alltaf að gera það sama, fara í sama skáp í ræktinni og vera fastir í viðjum vanans. Gott að ég er ekki einn af þeim. 




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×