Innlent

Skammdegisþunglyndið hvolfist yfir

Jakob Bjarnar skrifar
Valgerður Margrét og Anna Kristín. Í stefnir að þunglyndi almennt sé og verði eitt þyngsta og dýrasta vandamálið á heimsvísu.
Valgerður Margrét og Anna Kristín. Í stefnir að þunglyndi almennt sé og verði eitt þyngsta og dýrasta vandamálið á heimsvísu. visir/gva/getty
Nú þegar daginn styttir hvolfist skammdegisþunglyndið yfir hjá þeim sem eiga við þann vanda að stríða. Þetta er vandi sem fólk ætti ekki að vanmeta.

Þegar að er gáð kemur reyndar á óvart að erfðafræðilega eru Íslendingar býsna vel í stakk búnir til að takast á við þennan vanda, þá í samanburði við aðrar þjóðir. Vísir ræddi sálfræðinginn Önnu Kristínu Cartesegna um skammdegisþunglyndi, en hún, ásamt Valgerði Margréti Magnúsdóttur hjúkrunarfræðingi gengst fyrir námskeiði um þennan svarta hund sem svo margir eiga við að etja.

Íslendingar hafa aðlagast myrkrinu

Reyndar er það svo að skammdegisþunglyndi er í öllum samanburði tiltölulega sjaldgæft á Íslandi, í öllum samanburði, segir Anna Kristín.

„Algengi þess um 3,5%. Þunglyndi sem er óháð árstíðum er hins vegar mun algengara, búast má við því að um 15-25 prósent fólks finni fyrir því einhvern tíman á ævinni.“

Anna Kristín segir að rökrétt ályktun að draga væri sú að telja skammdegisþunglyndi algengara hér á landi en sunnar á hnettinum vegna skorts á dagsbirtu yfir vetrarmánuðina.

„Hins vegar benda rannsóknir til þess að skammdegisþunglyndi sé um helmingi sjaldgæfara hér á landi en til dæmis á austurströnd Bandaríkjanna sem liggur sunnar en Ísland. Frekari rannsóknir virðast styðja hugmyndir um að Íslendingar hafi náð að aðlagast myrkrinu og búi erfðafræðilega yfir betra þoli gagnvart því en aðrar þjóðir.“

Þunglyndi einn erfiðasti og dýrasti vandi sem við er að etja

Þannig er ekki hægt að segja, í ljósi þeirra rannsókna sem Anna vísar til, að þessi vandi sé stórkostlega vanmetinn á Íslandi. Og það sem meira er:

„Rannsóknir benda til þess að við séum sterkari en aðrar þjóðir á svipuðum breiddargráðum. Hins vegar greinir Alþjóðaheilbrigðismálastofnun frá því að þunglyndi almennt sé og verði eitt þyngsta og dýrasta vandamálið á heimsvísu. Í því samhengi er þunglyndi allavega ekki ofmetinn vandi og mikilvægt er að fyrirbyggja að það geri vart við sig yfir höfuð. Hjá þeim sem þekkja þunglyndi er mikilvægt að koma í veg fyrir bakslög.“

Valgerður Margrét og Anna Kristín vilja brjóta upp vítahring þunglyndis með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.visir/gva
En, er einhver munur á skammdegisþunglyndi og öðru þunglyndi?

„Skammdegisþunglyndi getur verið mjög svipað almennu þunglyndi. Munurinn er að það er árstíðabundið og virðist frekar stjórnast af dagsbirtu. Það byrjar og endar á svipuðum tíma árlega; hefst yfirleitt á haust/vetrarmánuðum og hverfur á vormánuðum. Annað þunglyndi getur gert vart við sig á hvaða tíma sem er og er þá frekar tengt aðstæðum í lífi einstaklingsins eins og álagi, sjúkdómum og áföllum.“

Einkennin

Einkennin þau þegar skammdegisþunglyndið lætur á sér kræla, sem mjög mikilvægt er að fólk sé vakandi fyrir, eru eftirfarandi:

- depurð og/eða áhugaleysi

- vanvirkni

- pirringur

- orkuleysi

- matarlyst og svefnþörf geta aukist

Hreyfing virkar sem bestu lyf

Er eitthvað sem fólk á einkum að varast?

„Það skiptir máli að þekkja sig vel og vera vakandi fyrir óhjálplegri hegðun sem einkennir þunglyndi, eins og að loka sig af, tapa rútínu og reglu í mataræði og svefni.“

Mjög mikilvægt er að fólk bregðist við ef það telur sig kannast við þessi einkenni.

„Vanvirkni er stór viðhaldandi þáttur í þunglyndi svo dagleg hreyfing getur brotið upp vítahringinn hjá mörgum. Kröftug hreyfing virðist virka jafn vel og þunglyndislyf og er laus við aukaverkanir,“ segir Anna Kristín. Hún segir jafnframt að gott geti verið fyrir þá sem þjást af skammdegisþunglyndi að nota dagsbirtulampa daglega.

Að brjóta upp vítahringinn

„Ef fólk veit hvað það þarf að gera til að láta sér líða betur en fær sig ekki til þess getur verið gott að leita faglegrar aðstoðar. Rannsóknir benda til þess að hugræn atferlismeðferð virki vel sem fyrsta úrræði við þunglyndi. Í alvarlegum tilvikum getur þurft lyfjameðferð ásamt sálfræðimeðferð.“

Eins og áður sagði ætla þær Anna Kristín og Valgerður Margrét að gangast fyrir námskeiði fyrir þá sem telja sig eiga við þennan vanda að etja.

„Við erum að fara af stað með námskeið þar sem megináhersla verður lögð á leiðir til að brjóta upp vítahring þunglyndis með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Við mælum með námskeiðinu fyrir alla sem þekkja þunglyndi og langar til að læra að nota hugræna atferlismeðferð til að komast út úr því og vilja koma í veg fyrir bakslag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×