Innlent

Skammar þingmenn fyrir að leggja í leyfisleysi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir. vísir/stefán
Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir ótækt að þingið marki sér stefnu um að leggja áherslu á aðra samgöngumáta en einkabílinn, en fylgi henni ekki eftir. Nú séu þingmenn og starfsmenn þingsins farnir að nýta uppbyggingarreitinn við Vonarstræti undir bílastæði, í algjöru leyfisleysi og óþökk borgaryfirvalda.

„Fyrir mér horfandi á þetta svæði utan frá, ef ég vissi ekki betur, þá væri ég ekki viss hvort hér færi fram lagasetning fyrir landið allt og því til heilla eða bílasala. Það er óásættanlegt og fyrir utan allt þetta þá er nýting á þessu svæði með öllu óheimil,“ sagði Heiða Kristín í störfum þingsins í dag.

Hún sagði að um algjört hugsunarleysi væri að ræða og hvatti þingheim til nýta sér annars konar samgöngumáta.  „Í þessu samhengi er rétt að taka fram að ég er ekki að segja að einkabílinn megi ekki nota, hann er vissulega ágætur í mörgu en hann er ekki það eina sem býðst. Eigi að taka þeim lögum sem hér eru sett og stefnum sem hér eru markaðar trúanlega verðum við að ganga á undan með góðu fordæmi. Rannsóknir og dæmi hafa marg sannað að eftir því sem infrastrúktúr fyrir bíla eykst fjölgar bílum. Það að leggja undir sig þetta landsvæði fyrir bílastæði þýðir ekkert annað en að þeim sem kom hingað á bílum til vinnu fjölgar. Það er ekki góð þróun,“ sagði Heiða Kristín.

Starfsfólk hefði ekki heimild til að leggja á þessu svæði og að það eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að nýta þau bílastæði sem það hafi heimild til að nota, sem séu níutíu og sex talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×