Lífið

Skálmöld á leið í annað tónleikaferðalag um Evrópu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér er hljómsveitin ásamt Axel Flex Árnasyni sem sá um að hljóðblanda tónlistina og rífa kjaft þegar á þurfti að halda.
Hér er hljómsveitin ásamt Axel Flex Árnasyni sem sá um að hljóðblanda tónlistina og rífa kjaft þegar á þurfti að halda.
„Við erum að fara í annað tónleikaferðalag í febrúar með sömu hljómsveit og við vorum með á síðasta ferðalagi,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari Skálmaldar.

Sveitin er nýkomin heim eftir langt og strangt tónleikaferðalag um Evrópu með hljómsveitinni Eluveitie frá Sviss. „Tónleikaferðalagið í febrúar verður ekki jafn langt og síðasta ferðalag. Við verðum úti í rúmar tvær vikur,“ bætir Snæbjörn við.

Tékkinn Robert var bílstjóri ferðarinnar og var það líka í fyrra og er mikill líkamsræktariðkandi. „Robert hefur keyrt okkur tvo túra og fer með okkur í þann þriðja í febrúar. Hann er í geggjuðu formi og túrar með ketilbjöllur í rútunni. Hann var duglegur að reyna draga okkur út að hlaupa og hér er Þráinn að reyna að halda í við kappann,“ segir Snæbjörn.
Á meðal landa sem Skálmöld heimsækir eru Portúgal, Spánn, Ítalía, Grikkland og Búlgaría svo nokkur séu nefnd. Þá verður Skálmöld aðalupphitunarhljómsveitin á tónleikaferðalaginu. „Á síðasta túr þá opnuðum við giggið en núna verðum við síðasta upphitunarbandið fyrir aðalnúmerið.“

Eins og fyrr segir eru Skálmaldarmenn nýkomnir heim eftir rúmlega sex vikna langt ferðalag, þar sem sveitin lék á 38 tónleikum. „Þetta var stærsti túrinn okkar hingað til, við höfum aldrei spilað fyrir jafn marga,“ segir Snæbjörn. Skálmöld lék fyrir um 800 manns að meðaltali en áhorfendafjöldinn á tónleikum túrsins var frá 500 til 2.000 manns.

Myndirnar eru teknar af Baldri Ragnarssyni.

„Halli fékk algjöran bónus við túrinn þegar hann fór að grafreit Ludwigs van Beethoven og fleiri merkra manna. Hann dró okkur eldsnemma að morgni í kirkjugarðinn, ég var hissa hvað þetta var magnað. Halli er klassíski gaurinn í hópnum og við hefðum líklega ekki farið að skoða hefði hann ekki verið með. Það er gaman að gera eitthvað sem maður hefði ekki gert annars. Við fórum til að mynda með þýskum blaðamanni frá Metal Hammer í eitthvert jólaþorp, drukkum öl og nutum okkar í botn í kringum jólaandann.“
Meðlimir sveitarinnar slaka á fyrir gigg. „Það er mikilvægt að komast í internet-tengingu. Hérna erum við að drepa tímann fyrir gigg.“
Menn eru duglegir að fylgjast með fótbolta á tónleikaferðalagi, hvort sem það er að spila Manager-leikinn eða horfa á fótbolta. „Þarna er Þráinn líklega að spila Managaer eða horfa á fótbolta. Það voru eiginlega bara við Baldur sem spiluðum ekki Manager á milljón. Menn voru að spila Manager í símaum eða iPad. Flex er samt bestur í Manager og fór í gegnum svona 30 tímabil á túrnum.“
Skálmöld ferðaðist um í svipaðri rútu og þeir voru í á síðasta ferðalagi sem var á síðasta ári. „Þetta var mjög flott rúta, enginn lúxus en við erum ágætir í því að láta hlutina ganga. Við erum alltaf með sömu kojurnar. Litli bróðir minn, Baldur Ragnarsson, sem er vaxinn eins og api tekur að sér neðstu kojuna en hlunkurinn ég treð mér alltaf í efstu kojuna. Ég hef alveg rispað mig og marið við það að klifra upp í koju þegar maður er í stuði.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×