Lífið

Skálmaldardagur haldinn á leikskóla

skálmaldarbörn Börnin á leikskólanum Bárðargili eru miklir aðdáendur Skálmaldar.
skálmaldarbörn Börnin á leikskólanum Bárðargili eru miklir aðdáendur Skálmaldar. mynd/maría sigurðardóttir
„Þau eru miklir Skálmaldaraðdáendur," segir María Sigurðardóttir yfirmaður á leikskólanum Bárðargili í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Sjö krakkar eru á leikskólanum og klæddust þeir allir Skálmaldarbolum á sérstökum Skálmaldardegi sem var haldinn hátíðlegur fyrir skömmu. Krakkarnir hlustuðu á lög með þungarokksveitinni hressu og sungu mest með einu lagi hennar, Kvaðningu.

„Við erum með tónlistarþema og þessi dagur var tileinkaður Skálmöld," segir María, sem á enn eftir að sjá hljómsveitina á tónleikum. Sömu sögu má segja um krakkana. „Ein mamman spurði hvort það færi ekki að koma að tónleikum bráðum því það væru ungir aðdáendur sem væru til í að hlusta og horfa."

Tengsl leikskólans við Skálmöld eru til staðar því Bárðardalur er í um sjötíu kílómetra fjarlægð frá Húsavík en þaðan koma tveir meðlimir hljómsveitarinnar. Einn er sömuleiðis úr næstu sveit við Bárðardal og afi eins meðlims á heima í Mývatnssveit.

Fleiri hljómsveitir hafa fengið sérstakan dag á leikskólanum, eða Ljótu hálfvitarnir, Nýdönsk og Mugison. Í þessari viku er svo röðin komin að Pearl Jam og Metallica. Seinna í maí verður einnig haldin Eurovision-vika í tilefni af úrslitunum í Aserbaídsjan. „Við ætlum að kynna þau fyrir hinum ýmsu lögum og ræða við þau um Eurovision," segir María. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×