Menning

Skáldsagan Burial Rites kemur út á íslensku í haust

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hannah Kent Var skiptinemi á Íslandi.
Hannah Kent Var skiptinemi á Íslandi. MYND/Nordicphotos/Getty
Þótt skáldsagan Burial Rites sé ættuð frá Ástralíu, höfundurinn er Hannah Kent, þá er yrkisefnið rammíslenskt, saga Agnesar Magnúsdóttur, síðustu konunnar sem tekin var af lífi af yfirvöldum á Íslandi. Sagan, sem er margverðlaunuð og hefur farið hina frægu sigurför um heiminn, er nú væntanleg frá Forlaginu í íslenskri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar og er útgáfa fyrirhuguð snemma í september.



Sagan lýsir dvöl Agnesar í varðhaldi eftir dauðadóminn og í henni rekur hún sögu sína smátt og smátt fyrir aðstoðarprestinum Tóta sem falið hefur verið að sjá um andlegan undirbúning hennar fyrir dauðann. Agnes var, eins og frægt er, hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830 ásamt félaga sínum Friðriki Sigurðssyni, fyrir morðið á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni.



Hannah, sem er 28 ára, kom sem skiptinemi til Íslands á unglingsárum og hreifst svo af dramatískri sögu Agnesar að þegar hún hóf skriftir á sinni fyrstu bók kom engin önnur til greina, að hennar sögn.



Í samræmi við sigurgöngu bókarinnar er nú einnig í undirbúningi kvikmynd eftir sögunni þar sem Jennifer Lawrence fer með hlutverk Agnesar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×