Erlent

Skaðbrenndist út af Apple úri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Apple úr.
Apple úr. vísir/getty

„Ég var á leiðinni á klósettið þegar ég fann nístandi sársauka í vinstri handleggnum og á sama fann ég lykt af brennandi holdi,“ segir Jörgen Mouritzen í samtali við Ekstra Bladet um það þegar hann brenndist illa í október síðastliðnum. Mouritzen telur að um sé að kenna Apple úri sem hann bar.

Hann segir að sársaukinn og lyktin hafi komið frá ól úrsins sem var brennandi heit.

„Þegar ég reif það af mér með hægri höndinni brenndist ég einnig á fingrum, svo heit var ólin.“

Mouritzen segist sannfærður að Apple úrinu sé um að kenna. Hann hafi ekki verið nálægt neinu heitu, eða snert neitt heitt, þegar hann fann til sársaukans. Hann hefur nú beðið í meira en mánuð eftir skýringu frá Apple á því hvað gerðist. Það eina sem hann hefur heyrt er að Apple sé enn að skoða málið.

„Ég hef ekki heyrt neitt um það hvers vegna þetta gerðist né nokkuð um nýtt úr,“ segir Mouritzen. Hann segist ekki vera að hefna sín á Apple.

„Ég er mikill aðdáandi Apple og held að þarna sé bara um einstakt tilfelli að ræða af gallaðri vöru. Ég er hins vegar undrandi á því hvað Apple gerir lítið til að hjálpa viðskiptavinum sínum.“

Sjá má myndir af brunasárum Mouritzen á vef Ekstra Bladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×