Erlent

Sjúkratryggingafrumvarp repúblikana í vanda

Kjartan Kjartansson skrifar
Andstæðingar sjúkratryggingafrumvarpsins sem hefur verið nefnt Trumpcare eftir forsetanum hafa mótmælt fyrir utan Hvíta húsið.
Andstæðingar sjúkratryggingafrumvarpsins sem hefur verið nefnt Trumpcare eftir forsetanum hafa mótmælt fyrir utan Hvíta húsið. Vísir/EPA
Að minnsta kosti fimm öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst yfir andstöðu við sjúkratryggingafrumvarp flokksins. Afdrif frumvarpsins eru óljós því aðeins þarf þrjá repúblikana til að ganga úr skaftinu svo að það falli um sjálft sig.

Ný sjúkratryggingalög sem komi í staðinn fyrir heilbrigðistryggingalög Baracks Obama, fyrrverandi forseta, hefur verið eitt helsta pólitíska baráttumál Repúblikanaflokksins um árabil.

Forysta flokksins var hins vegar gerð afturreka með frumvarp að þeim fyrr á þessu þingi. Í síðustu viku lögðu öldungardeildarþingmenn flokksins fram ný drög að frumvarpi sem mikil leynd hefur hvílt yfir.

Sjá einnig:Repúblikanar byrja að afhjúpa heilbrigðistryggingafrumvarp sitt

Frumvarpið hefur mætt mikilli andstöðu og hafa skoðanakannanir sýnt að það sé afar óvinsælt á meðal almennings. Andstæðingar frumvarpsins og sérfræðingar hafa haldið því fram að það muni gera sjúkratryggingar verri og dýrari auk þess sem milljónir Bandaríkjamanna muni missa tryggingar sínar.

Tom Price, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, hlustaði á skjólstæðinga sjúkratrygginga lýsa neikvæðum áhrifum frumvarps repúblikana á sig fyrir helgi.Vísir/EPA
Breytingar gætu reitt harðlínumenn til reiði

Auk öldungardeildarþingmannanna fimm sem hafa orðað andstöðu sína við frumvarpið segir Washington Post að fjöldi annarra repúblikana hafi lýst efasemdum og áhyggjum.

Blaðið segir að það geti reynst flokksforystunni erfitt að smala saman nógu mörgum atkvæðum í þingdeildinni. Breyti hún frumvarpinu til að friða hófsamari repúblikana eigi hún það á hættu að reita harðlínuíhaldsmenn til reiði sem telja núverandi frumvarp ekki ganga nógu langt til að afnema þær breytingar sem Obama kom á.

Línur eru taldar munu skýrast frekar þegar fjármálaskrifstofa Bandaríkjaþings leggur fram skýrslu sína um kostnað og áhrif frumvarpsins. Úttekt hennar á frumvarpi fulltrúadeildarinnar benti til þess að 23 milljónir Bandaríkjamanna til viðbótar yrðu án sjúkrartrygginga árið 2026.

Repúblikanar eru með 52 sæti af hundrað í öldungadeildinni á móti 46 demókrötum. Tveir öldungadeildarþingmenn til viðbótar eru óháðir en vinna með demókrötum, þar á meðal Bernie Sanders sem bauð sig fram í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×