Skoðun

Sjúkrahúsið í Mosó – spennandi verkefni

Guðmundur Edgarsson skrifar
Sá samningur sem Mosfellsbær gerði nýlega við erlenda fagfjárfesta um byggingu alþjóðlegs sjúkrahúss gæti falið í sér gríðarleg tækifæri, ekki einungis fyrir íslenskt heilbrigðisstarfsfólk heldur líka fyrir heilbrigðiskerfi landsins. Hér yrði um að ræða háþróaða starfsemi sem kallaði á starfskrafta hundraða sérfræðinga á sviði heilbrigðisvísinda en einnig af öðrum sviðum svo sem úr hugbúnaðar- og tæknigeiranum.

Þótt fyrirhugað sé að starfsmenn hins nýja spítala verði erlendir er vel hugsanlegt að æ fleiri Íslendingar ynnu þar í framtíðinni. Sérfræðingar og aðrir starfsmenn á sviði heilbrigðisþjónustu hér á landi myndu því búa við aukið frelsi til að velja sér starfsvettvang og atvinnurekanda sem ætti að bæta samningsstöðu þeirra í kjaramálum. Ástæðulaust er að hafa áhyggjur af langvarandi skorti á heilbrigðisstarfsfólki því markaðslögmálið mun leiða til þess að fleiri munu sækja í nám á sviði heilbrigðisvísinda en áður jafnframt því sem viðbúið er að dregið verði úr fjöldatakmörkunum. Þá má vænta þess að læknar og hjúkrunarfólk erlendis muni í auknum mæli snúa heim til starfa í fjölbreytilegra og samkeppnishæfara starfsumhverfi en áður hefur boðist.

Hinn nýi spítali er algjörlega fjármagnaður að utan og því mun Landspítalinn ekki þurfa að bítast við hann um takmarkaðar fjárveitingar ríkisins. Þvert á móti. Ríkið mun fá umtalsverðar viðbótartekjur af starfsemi sjúkrahússins og afleiddri þjónustu í formi ýmiss konar skatta og gjalda sem vitaskuld auðveldar fjármögnun íslenska heilbrigðiskerfisins. Þar að auki er líklegt að einhverjir Íslendingar muni sjá sér hag í að kaupa sér þjónustu nýja sjúkrahússins og létta þannig undir hinu ríkisrekna heilbrigðiskerfi.

Sjúkrahúsið í Mosfellsbæ verður einkafyrirtæki og ætti því ekki að þurfa að lúta opinberum kvöðum öðrum en þeim lögum og gæðastöðlum sem gilda í landinu um slíkar stofnanir. Mislukkist verkefnið, er það vandamál fjárfesta, ekki stjórnmálamanna. Því er brýnt að ráðamenn í þessu landi láti ekki illa grundaðar dómsdagsspár trufla framgang þessa verkefnis heldur komi að því á uppbyggilegan og lausnarmiðaðan máta. Lánist þeim það, gæti sjúkrahúsið orðið slíkur hvalreki fyrir Íslendinga, að seint verður jafnað.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×