Viðskipti innlent

Sjóvá hagnast um 2,7 milljarða og hluthafar fá litlu minna í arð

Haraldur Guðmundsson skrifar
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár Vísir/Daníel
Tryggingafélagið Sjóvá var rekið með 2.690 milljóna króna hagnaði i fyrra. Þar af nam hagnaður á fjórða ársfjórðungi 1.124 milljónum. Stjórn félagsins hefur lagt til að hluthafar þess fái greiddan arð sem nemur 2.600 milljónum króna.

Samkvæmt tilkynningu Sjóvár til Kauphallar Íslands var hagnaður af vátryggingastarfsemi 646 milljónir fyrir skatta. Fjárfestingarstarfsemin skilaði jákvæðri afkomu upp á 2.459 milljónir. Ávöxtun verðbréfasafns félagsins var 10,1 prósent á árinu.

„Afkoma Sjóvár fyrir árið 2016 var óvenju góð sem helgast fyrst og fremst af ávöxtun fjárfestingareigna sem var umfram væntingar. Afkoman af vátryggingastarfsemi fyrir árið var ekki langt frá birtum horfum í upphafi síðasta árs. Aðgerðir á liðnu ári til lækkunar á samsettu hlutfalli báru árangur og við gerum ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á þessu ári. Tjónshlutfallið er hærra en við teljum ásættanlegt en þar hafa aukin umsvif í þjóðfélaginu áhrif. Fjölgun erlendra ferðamanna hefur þar líka sitt að segja. Aukningin á milli ára í umferð um hringveginn í fyrra var sú mesta frá upphafi mælinga og vísbendingar eru um að sú þróun muni halda áfram,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, í tilkynningunni.

Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna árið 2015. Stjórn tryggingafélagsins vildi í febrúar í fyrra greiða hluthöfum 3,1 milljarð króna í arð. Upphæðin var síðar lækkuð í 657 milljónir eftir að arðgreiðslur Sjóvár og VÍS höfðu vakið mikla athygli og umtal.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×