Innlent

Sjötíu aldraðir sjúklingar fastir á Landspítalanum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikið álag hefur verið á Landspítalanum undanfarnar vikur þar sem óvenju margir sjúklingar hafa leitað þangað.
Mikið álag hefur verið á Landspítalanum undanfarnar vikur þar sem óvenju margir sjúklingar hafa leitað þangað.
Um sjötíu aldraðir sjúklingar eru fastir á Landspítalanum á meðan þeir bíða þess að komast á hjúkrunarheimili. Sumir hafa beðið í tvo til þrjá mánuði á spítalanum. Framkvæmdastjóri flæðisviðs segir erfitt að koma nýjum sjúklingum fyrir á spítalanum vegna plássleysis.

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum undanfarnar vikur þar sem óvenju margir sjúklingar hafa leitað þangað meðal annars vegna flensunnar. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs spítalans, segir mikið hafa mætt á starfsfólki bráðamóttökunnar undanfarið.

Sérstaklega hafi það reynst erfitt hversu langan tíma geti tekið að útskrifa sjúklinga þaðan á aðrar deildir vegna plássleysis á spítalanum.

„Það sem að kannski vegur þyngst er að það gengur illa í raun og veru að koma fyrir sjúklingum, sérstaklega sem að þurfa á einangrun að halda, inn á sjúkrahúsið,“ segir Guðlaug Rakel.

Guðlaug Rakel segir hluta vandans vera þann að margir aldraðir sjúklingar eru fastur á spítalanum á meðan þeir bíða eftir því að komast á hjúkrunarheimili.

„Fráflæði frá spítalanum, það er að segja inn á hjúkrunarheimilin, er frekar hægt það er að segja það vantar hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Það er náttúrulega eitthvað sem að við finnum verulega fyrir. Það eru til dæmis um sjötíu sjúklingar á spítalanum með færni- og heilsumat sem að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili og það munar um minna, “ segir Guðlaug Rakel.

Hún nefnir að á Vífilstöðum hafi verið opnað sérstakt úrræði fyrir þennan hóp fyrir nokkrum árum en það dugi ekki lengur til. Þá segir hún suma hafa þurft að bíða lengi inni á spítalanum eftir því að komast á hjúkrunarheimili eða í tvo til þrjá mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×