Innlent

Sjómenn vilja ekki borga nýju skipin fyrir útgerðir í landinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins. vísir/ernir
Sjómenn samþykktu í gær að boða til verkfalls sem að öllu óbreyttu hefst 10. nóvember. Níutíu prósent félagsmanna samþykktu aðgerðirnar en þar á meðal er félag Vélstjórnarmanna.

Samningar náðust milli aðila fyrr á árinu en þeir voru felldir í atkvæðagreiðslu sjómanna. Síðan hafa verkföll verið í undirbúningi.

Meðal ágreiningsefna í viðræðum sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, er þátttaka sjómanna í greiðslu veiðigjalda og hvort afnema skuli nýsmíðaálagið. Sjómenn telja sig eiga heimtu á útgerðina.

Þegar nýtt skip kemur til landsins renna tíu prósent af launum skipverja, næstu sjö árin, í kostnað sem hlýst af smíðinni. „Það var samið um þetta árið 2004 en þá var ástandið í greininni annað. Meðan útgerðin býr við myljandi hagnað þá finnst okkur ekki rétt að við greiðum með skipunum,“ segir Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins.

„Útgerðin hefur ekki viljað semja undanfarin ár vegna of mikillar óvissu um hag greinarinnar,“ segir Valmundur. Sjómenn hafa verið samningslausir frá árinu 2011 en verkfallsaðgerðir hafa verið í undirbúningi síðastliðna mánuði. Ljóst er að verkfall mun hafa víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir landvinnslu og greinar tengdar sjávarútvegi.

„Við bindum vonir við að sættir náist áður en til verkfallsins kemur,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að verkfallið sé neyðarúrræði og komi til með að valda samningsaðilum og samfélaginu öllu tjóni. Þá er þar bent á að nokkur fjöldi sjómanna hafi ákveðið að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Síðasta sjómannaverkfall var árið 2001 en því lauk með lagasetningu og gerðardómi í kjölfar hennar. „Sá gerðardómur er enn að bíta okkur í hælana og var okkur til ama,“ segir Valmundur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×