Erlent

Sjö manns féllu í sprengjuárás í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi árásarinnar.
Frá vettvangi árásarinnar. Vísir/AFP
Sjö starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar TOLO í Afganistan létu lífið í sprengjuárás í dag. Talibanar hafa lýst sjónvarpsstöðinni sem réttmætu skotmarki.

Minnst 25 særðust þegar árásarmaður keyrði bíl sínum í hlið sendiferðabíls sjónvarpsstöðvarinnar og sprengdi sig í loft upp. Árásin var gerð nærri sendiráði Rússlands í Kabúl, höfuðborg Afganistan.

Þetta er stærsta árásin gegn fjölmiðlum í Afganistan frá því að Talibönum var velt úr sessi árið 2001. Starfsmenn TOLO hafa margsinnis gagnrýnt Talibana fyrir framgöngu þeirra í landinu. Í október lýsti hópurinn starfsmönnum TOLO og 1TV sem réttmætum skotmörkum vígamanna.

Sú yfirlýsing kom í kjölfar þess að sjónvarpsstöðin birti fréttir af nauðgunum vígamanna Talibana í borginni Kunduz, sem þeir stjórnuðu um skammt skeið í fyrra.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hefur sjálfstæði fjölmiðlun blómstrað í Afganistan frá því að Talibanar voru reknir frá völdum. Þó eiga fjölmiðlamenn undir högg að sækja og ofbeldi gegn þeim hefur magnast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×