Innlent

Sjö leikskólanemar funduðu með borgarstjóra

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hér sést hópurinn á fundi með borgarstjóra.
Hér sést hópurinn á fundi með borgarstjóra. Mynd Dagur B. Eggertsson
Sjö strákar í leikskólanum Laufásborg funduðu með borgarstjóra til að ræða rusl og hundaskít á götum Reykjavíkurborgar í dag. Félagarnir fengu fund með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra eftir að þeir skrifuðu honum bréf þar sem þeir veltu upp spurningunni hvað þeir gætu gert vegna hundaskíts og rusls.

Bréfið sem drengirnir sendu Degi.Mynd Dagur B. Eggertsson
Dagur, sem bauð upp á flatkökur á fundinum, segir frá heimsókninni á Facebook-síðu sinni og birtir mynd af hópnum. „Gerðum samning um að þeir ræddu við hina krakkana á Laufásborg en ég talaði við starfsfólkið hjá borginni og við svo saman við foreldrana, hundaeigendur og borgarbúa,“ skrifar hann.

Í bréfinu sögðust drengirnir hafa gaman af því að fara í ferðir og njóta borgarinnar en að þeim þætti „leiðinlegt að stíga í hundakúk og sjá rusl á götunum“. Lýstu þeir líka yfir ánægju sinni með Dag sem borgarstjóra. „Þú ert góður borgarstjóri, með fallegt hjarta, fallega sál og ert góður vinur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×