Erlent

Sjö látnir í loftárásum á Gasa

Randver Kári Randversson skrifar
Þungar loftárásir hafa verið gerðar á Gasa í dag.
Þungar loftárásir hafa verið gerðar á Gasa í dag. Vísir/AFP
Sjö hafa látist í loftárásum Ísraelshers á Gasa nú í morgun. Það sem af er degi hafa ísraelskar herþotur gert um 20 loftárásir á Gasa, en Ísraelsmenn segja að Hamas hafi skotið yfir 80 flugskeytum frá Gasa að Ísrael í gær.

Á vef Al Jazeera kemur fram að sjö hafi látist í árásinum það sem af er degi, þar af fimm manna fjölskylda. Þá særðust sjö manns þegar sprengja lenti á húsi í bænum Zeitoun austan við Gasaborg.

81 Palestínumaður,  og einn 4 ára ísraelskur drengur hafa látist, auk þess sem níu ísraelskir borgarar hafa særst frá því að vopnahlé, sem staðið hafði í níu daga, var rofið á þriðjudag.

Til átaka kom í borgunum Hebron, Ramallah og Betlehem á Vesturbakkanum milli lögreglu og mótmælenda, sem mótmæltu hernaði Ísraelsmanna á Gasa. Notaði lögregla táragas til að dreifa mannfjöldanum.

Heilbrigðisyfirvöld í Palestínu segja að í það minnsta 2098 Palestínumenn hafi látist frá því átökin hófust þann 8. Júlí og að minnsta kosti 10540 hafi særst. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa 478 palestínsk börn látist, og voru 320 þeirra yngri en 12 ára.

68 Ísraelsmenn hafa látist í átökunum,  þar af fjórir óbreyttir borgarar, en 64 hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×