Innlent

Sjö ára gömul blind stúlka og fjöl­skylda á ver­gangi í Reykja­vík

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Cristina Furdui er sjö ára og flakkar fjölskylda hennar á milli gistiheimila.
Cristina Furdui er sjö ára og flakkar fjölskylda hennar á milli gistiheimila.
Sjö ára gömul blind stúlka frá Rúmeníu og foreldrar hennar eru á vergangi í Reykjavík. Fjölskyldan fær ekki húsnæði við hæfi fyrir stúlkuna og flakkar því á milli gistiheimila eftir því hvar er laust. Faðir stúlkunnar segir stúlkuna þurfa öryggi og að erfitt sé fyrir hana að læra á nýjar aðstæðum.

Furdui fjölskyldan kom hingað til lands fyrir rúmlega tveimur árum, en þau eru frá Rúmeníu. Foreldrarnir Lon og Elena eru bæði í vinnu hér á landi. Þau eiga tvær stúlkur en það eru þær Daría sem er þriggja ára og Cristina sem er sjö ára en hún er blind.

Fyrir nokkru misstu þau húsnæði sem þau leigðu á almennum leigumarkaði en þeim hefur ekki tekist að tryggja sér annað húsnæði og búa í litlu herbergi á hosteli í miðbænum.

Lon segir borgina ekki geta aðstoðað nema með því að greiða hluta kostnaðar við uppihald á gistiheimilinum. Öll húsnæðisúrræði séu full og því sé fátt til ráða.

„Við biðjum um hjálp en fáum bara þetta hótelherbergi. En það er vandamál fyrir dóttur mína að búa í svona litlu rými. Við búum hérna á Íslandi vegna dóttur okkar. Í Rúmeníu er enginn skóli fyrir dóttur mína. Þess vegna getum við ekki farið til Rúmeníu og þar höfum við enga vinnu,“ segir Lon. 

Hann segir Cristínu hafi staðið sig vel í skólanum og fengið góða þjónustu frá þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Fjölskyldan vilji búa á Íslandi því hér sé gott að búa með blint barn.

Lon bætir við að mikilvægt sé að Cristina búi við öryggi. „Fyrir dóttur mína er erfitt að vera alltaf að skipta um umhverfi. Dóttir mín hefur skólann. Þetta er góður skóli. Þar eru sömu kennararnir og vinir hennar, hún veit hvar klósettin eru og stigarnir. Það er erfitt að fara í nýjan skóla,“ segir Lon

Cristinu segist vera mjög ánægð í skólanum. „Já ég nota staf. Til að labba á milli og finna,“  segir Cristina en hún segist eiga mikið af vinum í skólanum.  Ekki vantar upp á grínið hjá Cristinu og var hún afar hress þegar fréttamaður spurði hana spjörunum úr.

Varaformaður Blindrafélagsins segir mál fjölskyldunnar afar sorglegt. Reykjavíkurborg beri að útvega fjölskyldunni félagslegt húsnæði en staðan sé erfið.

„Þetta eru Reykvíkingar sem eiga rétt á félagslegu húsnæði en það er bara ekki í boði eins og er vegna húsnæðiseklu. Það er ekki það að þau séu ekki metinn inn því þörfin sé ekki til staðar ,“ segir Rósa María Hjörvar hjá Blindrafélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×