Viðskipti innlent

Sjávarútvegsráðherrar Íslands og Noregs funduðu í Chile

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Pjetur
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundaði með Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, í Puerto Varas í Síle í gær. Ráðherrarnir sækja nú fiskeldissýninguna AquaSur.

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að á fundinum hafi ýmis mál verið rædd er varða sameiginlega hagsmuni þjóðanna. „Ráðherrarnir fóru yfir þá neikvæðu stöðu sem er í viðræðum um stýringu flestra þeirra stofna sem þjóðirnar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta gagnvart en strandríkjafundir haustsins hafa ekki gengið sem skyldi. Þau voru sammála um mikilvægi þess að leita að lausnum og vera í áframhaldandi samskiptum sín á milli enda mikilvægt að leysa þann ágreining sem uppi er og koma í veg fyrir ofveiðar sem eru engum til framdráttar til lengri tíma litið. Norðmenn komu jafnframt á framfæri óánægju sinni vegna ákveðinna skilyrða sem er að finna í loðnusamningi þjóðanna.“

Aspaker kom til Íslands ásamt sendinefnd síðastliðið sumar til að kynna sér innviði íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og fullnýtingu afurða. „Kom hún á framfæri þökkum og ánægju með þá ferð. Aspaker bauð jafnframt Íslandi að koma í heimsókn til að kynna sér helstu innviði stjórnunar í fiskeldi þar í landi, sem er öflug útflutningsgrein í Noregi,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×