Innlent

Sjálfsvígssímtölum hefur fjölgað mikið

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Algengasta dánarorsökin hjá ungum karlmönnum á aldrinum 18-25 ára er sjálfsvíg. Nú er í gangi átak til þess að vekja athygli á þessu samfélagsmeini.
Algengasta dánarorsökin hjá ungum karlmönnum á aldrinum 18-25 ára er sjálfsvíg. Nú er í gangi átak til þess að vekja athygli á þessu samfélagsmeini. NORDICPHOTOS/GETTY
„Á fyrri hluta ársins hefur verið 42 prósenta aukning á sjálfsvígssímtölum miðað við í fyrra. Það er rúmlega eitt símtal eða spjall á dag sem snýst um sjálfsvíg. Hvort sem það er eigið sjálfsvíg eða sjálfsvíg annarra,“ segir Hjálmar Karlsson, verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Í dag hefst átak Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins, Útmeð'a, sem snýr að því að vekja athygli á því samfélagsmeini sem sjálfsvíg ungra karlmanna er, en á Íslandi er það algengasta dánarorsök ungra karlmanna en árlega látast 4-6 af þess völdum.

Hjálmar segir erfitt að meta af hverju þessum símtölum hafi fjölgað, líklega sé um samspil margra þátta að ræða. Aukin umræða er um sjálfsvíg og svo verði þau vör við fjölgun símtala þegar fjallað er um sjálfsvíg í fjölmiðlum.

Hjá Hjálparsímanum starfa 75 sjálfboðaliðar og opið er allan sólarhringinn. Bæði er hægt að hafa samband í gegnum síma og netspjall.



Salbjörg Bjarnadóttir
„Í sjálfu sér er þetta ekki há tala en hún er samt há á mælikvarða okkar, ef við hugsum um aldurinn 15-24 ára þá erum við kannski að missa 6-8 á þessum aldri. Á ákveðnum árum hérna áður vorum við að missa fleiri, en ég held að forvarnarstarfið í skólum hafi komið sterkt inn,“ segir Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis. 

Salbjörg segir ýmsar ástæður vera fyrir því að sjálfsvíg sé algengara meðal ungra karlmanna en meðal kvenna, en þær gera fleiri tilraunir til sjálfsvígs. Meðal annars eiga strákar erfiðara uppdráttar í skólakerfinu, brottfall meðal ungra karlmanna sé meira úr skólakerfinu og þeir eigi oft erfiðara með að tjá tilfinningar sínar ef eitthvað amar að. „Það sem er erfiðast með þennan unga hóp er að það er ekki alltaf undirliggjandi geðrænn sjúkdómur en það getur samt verið kvíði, hvatvísi og ástarsorg sem er mjög vanmetin hjá ungum mönnum,“ segir hún. „Hvatvísi ungra manna er kannski það sem er hættulegast, því þeir sjá kannski ekki fyrir endanleikann í dauðanum. Það besta sem við gerum er að hafa mikla fræðslu í skólunum um hvert eigi að leita ef maður lendir í vandræðum,“ segir Salbjörg. 

Í morgun fór hlaupahópur af stað sem hleypur hringinn um landið til þess að vekja athygli á átakinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×