Innlent

Sjálfsvíg ungra manna mikið áhyggjuefni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Geðlæknir segir sjálfsvíg ungra karlmanna vera aðaláhyggjuefni þeirra sem koma að geðlækningum og sjálfvsvígsforvörnum. Mun færri ungar konur svipta sig lífi en karlar. 

Fjöldi sjálfsmorða á Íslandi hafi verið svipaður mörg undanfarin ár, eða á bilinu 35-40. Algengara er að fólk svipti sig lífi á vorin og sumrin en í svartasta skammdeginu.

Sjálfsvígum ungra karlmanna hefur fjölgað meira en í öðrum aldurshópum undanfarna áratugi, en á bilinu fjórir til sjö íslenskir karlmenn á aldrinum 18-24 ára svipta sig lífi ár hvert. 

Óttar Guðmundsson, geðlæknir, segir hvatvísi einkenna þennan hóp. Aðdragandi sjálfsvígsins sé yfirleitt stuttur eða jafnvel enginn.

„Þetta er oft ákvörðun sem tekin er í hita leiksins, oftar en ekki á djamminu þar sem áfengi er við hönd. Helsta vandamálið í sambandi við forvarnir er að þetta er oft svo mikil hvatvísi. Þeir gera eina tilraun sem tekst, það er ekki þessi langi aðdragandi og þetta langa ferli sem við sjáum venjulega í sjálfsvígum hjá fullorðnum,“ segir hann.

Athygli vekur að það heyrir nánast til undantekninga að konur á aldrinum 18-24 ára taki eigið líf. 

„Ungar konur fyrirfara sér í mun minni mæli heldur en ungir karlmenn og það er líklega margt sem kemur þar inn í. Þær virðast eiga auðveldara með að tala um sínar tilfinningar og vinna með þær, auk þess sem vinkvennasamböndin virðast vera mun traustari en vinasamböndin,“ segir Óttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×