Fótbolti

Sjálfstraustið hjá Hernandez í molum

Javier Hernandez.
Javier Hernandez. vísir/getty
Mexíkóski framherjinn Javier Hernandez er orðinn pirraður enda fær hann lítið að spila.

Hann var lánaður frá Man. Utd til Real Madrid síðasta sumar og var þá að vonast eftir því að fá að spila meira á Spáni en á Englandi. Það hefur ekki gengið eftir.

Hernandez er aðeins búinn að spila í 590 mínútur fyrir Real Madrid og sjálfstraustið er ekki mikið.

„Þetta er pirrandi. Ég legg mig fram, gef allt sem ég á en tækifærin eru af mjög skornum skammti. Stundum er sjálfstraustið alveg í molum en ég hef sem betur fer gott fólk sem styður mig," sagði Mexíkóinn.

Hernandez hefur reyndar spilað lítinn fótbolta síðustu ár. Hann var í byrjunarliði Man. Utd sex sinnum á síðustu leiktíð.

„Mikilvægast er að fá tækifæri og að finna að einhver hafi trú á manni. Síðustu tvö ár hafa því reynt á þolrifin."

Strákurinn skoraði þó eina mark leiks Mexíkó og Ekvador á dögunum og það ætti að gefa honum örlítinn byr í seglin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×