Skoðun

Sjálfstætt líf er mannréttindamál

Guðjón Sigurðsson skrifar
„Sjálfstætt líf“ er hugmyndafræði fatlaðs fólks sem vill sjálfstæði í lífi sínu, jöfn tækifæri og sjálfsvirðingu. Sjálfstætt líf þýðir ekki að við viljum gera allt sjálf og þurfum enga aðstoð frekar en að við viljum lifa í einangrun.

Sjálfstætt líf þýðir það að við gerum kröfu um að geta valið og stjórnað okkar hversdagslífi, eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins ganga að sem sjálfsögðu. Við viljum geta alist upp og verið með fjölskyldum okkar, geta gengið í sama skóla og nágrannar okkar, geta komist á milli staða þegar við kjósum, geta unnið vinnu sem hæfir okkar menntun og áhugamálum og geta stofnað okkar eigin fjölskyldu.

Þar sem við erum sjálf mestu sérfræðingarnir um líf okkar, verðum við að láta vita af lausnunum sem við viljum, stjórna lífi okkar, hugsa og tala fyrir okkur sjálf – rétt eins og allir aðrir. Við verðum að læra hvert af öðru og breyta pólitíkinni okkur í vil svo valdhafarnir komi þessum sjálfsögðu mannréttindum á.

Eitt hentar ekki öllum. Hver einstaklingur þarf að fá að njóta sín á sinn hátt.

„Við erum einfaldlega venjulegt fólk sem vill vera með í þjóðfélaginu, viður­kennt og elskað. Á meðan við sjálf lítum á fötlun okkar sem ­­­harm­­leik, þá verður okkur vor­kennt. Á meðan við skömmumst okkar fyrir hver við erum, er líf okkar dæmt einskis vert. Á meðan við þegjum verður okkur sagt af öðrum hvað á að gera.“ (Adolf Ratzka 2005)

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður í mars 2007 en enn þá hefur lítið sem ekkert verið gert til að innleiða hann á Íslandi. Til hvers erum við að sýnast fyrir öðrum þjóðum á meðan við erum með allt niður um okkur í þessum málum hér á landi? Hvar er áhugi ríkis og sveitarfélaga í þessu máli samanborið við áhugann á flóttamönnum frá útlöndum? Það nýjasta er að NPA aðstoð er í uppnámi vegna skorts á peningum frá ríki til sveitarfélaga. Er þetta tvískinnungur eða bara eðlilegt? Flóttamenn eiga allt það besta skilið en það eigum við líka sem byggjum þetta frábæra land.

Njótum augnabliksins.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×