Erlent

Sjálfstæðissinnar í Skotlandi segjast sviknir

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnmálaflokkarnir á Bretlandi standa frammi fyrir því að efna loforð um aukið sjáfdæmi Skota í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna á dögunum. Strax er farið að bera á ágreiningi milli flokkanna og eru þeir sakaðir um að ætla að svíkja gefin fyrirheit.

Íhaldsflokkur David Camerons forsætisráðherra og Verkamannaflokkur Ed Milibands lofuðu báðir Skotum auknu sjáfdæmi um þeirra málefni, svo sem eins og auknu fjárveitingarvaldi. En nú strax eftir kosningar koma ólíkar áherslur flokkanna í ljós hvað þetta varðar.

Til að mynda telja margir íhaldsmenn óréttlátt að Skotar á breska þinginu geti greitt þar atkvæði um ensk mál þegar Englendingar geti ekki gert það um sérmál Skota. Þá er deilt um hversu langt á að ganga í stjórnkerfisbreytingum, til að mynda í átt il sambandsríkis, enda hagsmunir stóru flokkanna mjög ólíkir.

Alex Salmond fráfarandi leiðtogi Skorska þjóðarflokksins segir nýliðna þjóðaratkvæðagreiðslu styrkja sjálfstæðissinna í þeirri trú að full sjálfstæði Skotlands sé eina lausnin til að auka félagslegt réttlæti í landinu.

„Þeir sem eru vonsviknir,þeir sem eru reiðir og þeir sem gruna nú að svik séu í tafli tilheyra þeim fjórðungi kjósenda sem sagði nei. Þetta fólk sagði nei því það trúði og treysti á loforðin sem ráðamenn í Westminster gáfu. Þetta er fólkið sem er reitt í Skotlandi í dag,“ sagði Salmond.

Heimir Már Pétursson lýkur kosningaumfjöllun sinni um Skotland fyrir Stöð 2 sem má horfa á hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×