Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur

Erla Hlynsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins og fengi um 50% fylgi ef gengið yrði til kosninga í dag, samkvæmt könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Frá síðustu Alþingiskosningum hafa aldrei færri tekið afstöðu til þess hvaða lista þeir myndu kjósa.

Hringt var í átta hundruð manns, sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá, dagana sjöunda og áttunda desember.

Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag?

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar myndu tæp fimmtíu prósent kjósa Sjálfstæðisflokkinn, um sautján prósent myndu kjósa Samfylkinguna og svipaður fjöldi segist myndu kjósa Framsóknarflokkinn. Þá myndu rúm þrettán prósent kjósa Vinstri græn og tæp þrjú prósent kjósa Hreyfinguna.

Þessu niðurstöðum þarf þó að taka með ákveðnum fyrirvara vegna þess hversu fáir tóku afstöðu, eða aðeins tæp fjörutíuogfjögur prósent. Frá síðustu Alþingiskosningum hafa aldrei færri tekið afstöðu til þess hvaða lista þeir myndu kjósa, í könnunum Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Fyrsta árið eftir kosningar tóku um sextíu til sextíuogfimm prósent afstöðu. Þá fór hlutfall þeirra sem ekki tóku afstöðu minnkandi og nær lágmarki nú. Stjórnmálafræðingar hafa túlkað slíka þróun sem vísbendingu um minnkandi trú fólks á flokkunum.

Í því sambandi ber að skoða að samkvæmt niðurstöðunum nú segjast aðeins þrjú prósent munu kjósa annan flokk en þá sem hér á undan eru taldir, en ljóst hefur verið um nokkra hríð að fólk úr Besta flokknum ætlar ásamt Guðmundi Steingrímssyni að bjóða fram á landsvísu fyrir næstu kosningar.

Þegar spurt er hvaða lista fólk myndi kjósa segjast sextán prósent ætla að skila auðu, tuttutuogtvö prósent eru óákveðnir og tuttutuogtveir svara ekki spurningunni um hvaða flokk þeir myndu kjósa.

Ef þátttakandi tók ekki afstöðu var reynt að fá nákvæmari niðurstöður og því spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa?

Ef ekki fékkst svar var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk?

Endanlegar niðurstöður um fylgi flokkanna miðast við uppsöfnuð svör eftir þessa síðustu spurningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×